HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 510
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 6497362
Samtals gestir: 334154
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 14:22:35

Þeyr

Þeyr 1979-1983
Magnús Guðmundsson - Söngur 1979-1983
Hilmar Örn Agnarsson - Bassi 1979-1983
Hilmar Örn Hilmarsson - Trommur og Hljómborð 1979-1981 (23-04-58)
Elín Reynisdóttir 1979-1981
Jóhannes Helgason - Gítar 1979-1981 (16-06-1958)
Sigtryggur Baldursson 1979-1983 / 1983 (02-10-62)
Eiríkur Hauksson - Söngur 1979-1980
Guðlaugur Kristinn Óttarsson - Gítar 1981-1983 (11-12-54)
Þorsteinn Magnússon 1981-1982 / 1982
Guðmundur Sigurfreyr Jónasson - Bassi 1983


Steini-Maggi-Hilmar Agnars.-Gulli-Hilmar Agnars-Þeyr                               Sigtryggur

 
 1. LP Þagað í hel 1980 (desember SG-Hljómplötur)
 
 
 2. 7" Life transmission 1981 (23. apríl Fálkinn/Eskvimó)
 
 
 3. 10" Iður til fóta 1981 (Eskvimó)
 
 
 4. MC Iður til fóta/Brennunjálssaga (eingöngu á kassettu) 1981
 
 
 5. LP Mjötviður mær 1981 (Eskvimó)
 
 
 6. LP As above 1982 (Mjöt/Shout)
 
 
 7. EP The fourth reich 1982 (Mjöt/Shout)
 
 
 8. 7" Lunaire 1983 (Gramm)
 
 
 9. LP Mjötviður til fóta 2001 (Esquimaux management)

Þeyr

Við látum Bubba um dómsdagshugleiðingarnar, okkar þankar eru á öðrum sviðum. Allt frá Wilhelm Reich til leynifélagsskaparins Illuminati. Frá skýjabyssum til alheimssamsæris.
(Hljómsveitin Þeyr í viðtali við Morgunblaðið 11. okt. 1981)

Nýbylgjurokksveitin Þeyr er óneitanlega eitt þeirra nafna í íslenskri rokksögu sem hulið hefur verið svolitlum leyndardómum. Magnús Guðmundsson, söngur, Hilmar Örn Agnarsson, bassaleikari sem verið höfðu saman í ýmsum bílskúrshljómsveitum, voru ásamt Hilmari Erni Hilmarssyni í hljómsveitinni Fellibylur þegar trommarinn Sigtryggur Baldursson bættist í hópinn ásamt söngkonunni Elínu Reynisdóttur og gítarleikaranum Jóhannesi Helgasyni, auk söngvarans Eiríks Haukssonar, sem þó dvaldi ekki lengi með sveitinni. Þessi mannskapur kallaði sig Frostrós og var eiginlega hreinræktuð danshljómsveit með þekkt stuðlög á prógramminu, en miklar vangaveltur voru um nafn sveitarinnar uns þau duttu niður á hljómsveitarnafnið Þeyr sem fengið var úr ljóði eftir Skugga.
Seinni hluta árs 1979 hafði sveitin æft slatta af frumsömdu efni og náði með tveim sætum popplögum að fá Svavar Gests eiganda SG-hljómplatna til að samþykkja útgáfu á plötu með bandinu. Svavari leist vel á og fékk þau í hendur Sigurðar Árnasonar upptökustjóra Tóntækni sem var hljóðver SG-hljómplatna. Þar hóf sveitin upptökur á sinni fyrstu afurð. Sveitin vildi vanda til verksins og gengu tökur hægt. Um sumarið tók sveitin sér stutt frí frá upptökum, en þegar hún snéri aftur í hljóðverið hafði orðið þvílíkur umsnúningur á allri tónlist sveitarinnar að Sigurður upptökustjóri vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Fyrir bragðið var þessi fyrsta plata sveitarinnar svolítið tvískipt. Til gamans má geta þess að sveitin hljóðritaði talsvert af efni sem aldrei var sett á plötuna. Meðal annars má nefna lag við ljóð Davíðs Stefánssonar, Hindin sem Elín og Eiríkur Hauks sungu og Magnús söng einskonar karlakór í bakröddum.

Meðan á tökum plötunnar stóð hafði sveitin leynt útgefandum öllu sem viðkom gjörningnum. Þegar gripurinn var svo gott sem tilbúinn varð uppi fótur og fit því Svavari, sem hafði mjög ákveðnar skoðanir á útliti sem og innihaldi þeirra platna sem merktar voru SG-hljómplötum, fannst umslagið hreinlega ekki koma til greina. Elly Vilhjálms, kona Svavars, varð aftur á móti nokkuð hrifin af innihaldinu, fannst umslagið bara nokkuð flott og náði að tala bónda sinn til. Það má því kannski segja að platan Þagað í hel, sem kom aðeins út í 500 eintökum í síðasta mánuði ársins 1980 hafi verið réttnefni, auk þess reyndist þessi fyrsta og eina pressun plötunnar gölluð þegar hún kom til landsins. Óvíst er að þessi plata verði nokkru sinni gefin út á ný því upptökur hennar voru meðal þess sem skemmdist þegar kviknaði í hljóðverinu Tóntækni nokkrum árum síðar.

Gagnrýnendur voru himinlifandi með afurðina og spáðu sveitinni frægð og frama, líkt og áheyrendur þegar sveitin lék í fyrsta sinn opinberlega undir nafninu Þeyr þann 18. nóvember 1980. Fyrir jólin sama ár gekk Guðlaugur Kristinn Óttarsson til liðs við sveitina. . Nokkru eftir innkomu hans yfirgáfu þau Elín og Jóhannes bandið. Með breyttri liðskipan var stefnan sett uppávið og æft upp nýtt efni. Hljómsveitin Eik hafði verið í nokkru uppáhaldi meðal Þeysara og fannst þeim því mikill fengur þegar gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon kom til liðs við þá.

Árið 1981 var ár Þeysaranna sem hófst með sögulegum tónleikum á Hótel Sögu í febrúar þar sem boðið var upp á hárklippingu í hléi sem sveitin tók. Meðal þeirra sem nýttu sér þetta kostaboð var gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon sem lét rokkhárið fjúka. Fljótlega fékk sveitin á sig orðspor fyrir frábæra sviðsframkomu, auk þess sem efni bandsins þótti melódískt og aðgengilegt, en um leið frumlegt.

Hljómsveitin var vel styrkt með Guðna Rúnari og Hilmari Erni Hilmarssyni sem einskonar umboðsmenn sveitarinnar en Guðni, bróðir Hilmars bassaleikara var annar umsjónarmanna hinna frægu útvarpsþátta Áfangar. Næsta afurð sveitarinnar var sjö tommu platan Útfrymi sem kom út á þeirra eigin merki Eskvimó árið 1981 og hafði Hilmar Örn Hilmarsson þar hönd í bagga með textasmíðum.

Eftir að hafa tekið þátt í vægast sagt undarlegum gjörningi er tengdist Brennu-Njálssögu kvikmyndargerðarmannsins Friðriks Þórs Friðrikssonar hélt sveitin um landið í tónleikaferð og lék m.a. með Þursa- og Bara flokkunum á Akureyri. Af þeirri ferð lokinni var haldið í hljóðver þar sem fjögur lög voru fest á band til útgáfu á 10 tommu plötuna Yður til fóta og í beinu framhaldi var önnur LP plata sveitarinnar Mjötviður mær, hljóðrituð.

,,Þegar talað er um breiðskífuna, er kannski réttara  að tala um ,,hugarástandið?. Þessar upptökur eru afrakstur eða öllu heldur varðveisla á líðan og andlegu ásigkomulagi hljómsveitarinnar undanfarna mánuði. Og þvílíkir mánuðir! Við höfum sannreynt að meinlætislifnaður göfgar andann, og er andinn verður festur á stálþráð sem aftur á móti er hægt að skella á vínyl sem kemur út sem önnur LP plata Þeyrs í miðjum næsta mánuði, ef Guð og ónefndur aðili í því kompaníi lofar?.
(úr viðtali við Þeyr í þjóðviljanum 11. okt. 1981)

Um þetta leyti hafði myndast samband við Jaz Coleman, söngvara og hljómborðsmann Killing Joke, en sú sveit var á hraðferð til frægðar í Bretlandi. Jaz þessi hafði komið hingað til lands í nokkur skipti og þvælst um með Þeysurunum. Fyrir tilstilli þess kunningsskapar héldu Þeyr til London í nóvembermánuði þar sem þeim var meðal annars boðið að verða upphitunarband fyrir Cure í sex mánaða túr. Þeyr treystu sér hinsvegar ekki í slíkt stórvirki en komu heim með útgáfusamning við nýstofnað breskt útgáfufyrirtæki, Shout, upp á vasann. Um miðjan desember kom svo LP platan loks út. Þrátt fyrir nokkur kaflaskipti á plötunni, rétt eins og á þeirri fyrri, var henni vel fagnað og naut lagið Rúdolf talsverðra vinsælda. Platan sem hafði verið tekin upp á 140 tímum í Hljóðrita fékk góða dóma gagnrýnenda sem sögðu sveitina standa fyllilega undir væntingum.

Vorið 1982 gaf svo Breska fyrirtækið Shout út plötuna As above og var henni fylgt eftir með tónleikaferð um Norðurlönd. Á þessari plötu var að finna nýjar hljóðblandanir af eldra efni sveitarinnar auk lagsins Killer Boogie sem kom einnig út í annarri útgáfu á Rokk í Reykjavík. Jaz dvaldi hér um tíma og hafði uppi háar hugmyndir um upprisu rokktónlistar hér á landi og stofnaði hljómsveit ásamt hluta Þeysaranna undir heitinu Iceland. Undir því nafni tóku þeir m.a. upp nokkur lög í Hljóðrita sem þó voru aldrei sett á plast til útgáfu. Jaz átti við áfengisvandamál að stríða og átti það sinn þátt í að sveitin ákvað að snúa sér að eigin lagasmíðum. En Jaz fékk þá Árna og Tóta sem verið höfðu í hljómsveitinni Vonbrigði í lið með sér um tíma áður en hann hélt heim til Bretlands á ný og tók upp fyrra starf sitt með Killing Boogie.

Eftir þennan erfiða kafla sveitarinnar fengu Þeysararnir Þorstein Magnússon aftur í lið með sér og héldu í annan Skandinavíutúr. Guðni Rúnar og Hilmar Örn Hilmarsson voru að mestu hættir afskiptum af sveitinni og var túrinn því bandinu nokkuð erfiður. Þeir náðu þó að heilla útvarp og sjónvarp í Danaveldi, skruppu einnig í hljóðver og tóku upp nokkur ný lög sem síðar komu út á 12 tommu plötunni The fourth reich. Þrátt fyrir að platan væri tileinkuð minningu og ævistarfi Wilhelm Reich og öðrum and-nasistum var umslag plötunnar bannað í Bretlandi fyrir meinta nasistatilburði og varð Breska útgáfan Shout að skipta um umslag plötunnar. Platan fékk ekki góða dóma, tónlistin þótti þung og langt því frá eins aðgengileg og fyrri verk sveitarinnar. Þorsteinn Magnússon varð fyrstur til að yfirgefa bandið, enda hafði hann þá nýlega gefið út sólóplötuna Líf, undir listamannsnafninu Stanya og hélt nokkru síðar yfir í hljómsveitina Upplyftingu. Þeyr hélt áfram starfsemi með fjóra meðlimi innanborðs um tíma en hljóðnaði svo endanlega vorið 1983. Nokkru eftir að hljómsveitin hætti kom út lítil dvergskífa með laginu Lunaire ásamt tveim öðrum lögum sem tekin höfðu verið upp í Kaupmannahöfn á dögunum.

En Guðlaugur og Sigtryggur áttu síðar eftir að koma fram undir fánum Kuklsins, Magnús söngvari stofnaði hljóðverið Mjöt og þá stofnaði hann einnig hljómsveitina Með nöktum sem kom út plötunni Skemmtun árið 1985. Aðrir meðlimir hafa einnig horfið til annarra starfa t.d. Hilmar Örn Agnarsson sem nam Kirkjuorgelleik í Frakklandi og starfar nú sem organisti Skálholtskirkju auk þess að vera tónlistarkennari. Jóhann Helgason fór í flugmannsnám og er flugmaður hjá Flugleiðum, Elín hefur starfað sem fulltrúi hjá IMPRA.

Árið 1992 stóð til að safna saman efni Þeysaranna til útgáfu á vegum Smekkleysu en í miðjum klíðum var snúið frá því en eigendur efnisins náðu að koma fyrstu plötunni á legg sem hlaut heitið Mjötviður til fóta og er enn eina efni hljómsveitarinnar sem gefið hefur verið út á CD plötu, fyrir utan það sem finna má á plötunni Rokk í Reykjavík.

Bárður Örn Bárðarson

Uppfært 19-04-07