HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 600
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 6495848
Samtals gestir: 333963
Tölur uppfærðar: 10.12.2018 05:28:00

EikEik 1972-1978 / 2000

Haraldur Þorsteinsson - Bassi apríl 1972-1978 / 2000
Ólafur Sigurðsson - Trommur apríl 1972-1976
Lárus Halldór Grímsson - Hljómborð og flauta apríl 1972-1978 / 2000
Gestur Guðnason - Gítar apríl 1972-1973
Þorsteinn Magnússon - Gítar október 1972-1978
Árni Jónsson Sigurðsson - Söngur 1973-1974
Herbert Guðmundsson - Söngur 1974-1975
Sigurður Kristmann Sigurðsson (Siggi Píka) - Söngur 1975-1976
Ólafur Kolbeinsson - Trommur 1976-1977
Magnús Finnur Jóhannsson - Söngur 1976-1978
Tryggvi Júlíus Hübner - Gítar 1976-1978 / 2000
Ásgeir Óskarsson - Trommur 1977-1978 / 2000
Pétur Hjaltested - Hljómborð 1977-1978 / 2000
Björgvin Ploder - Söngur 2000

                            1975                                                          1976
 
Herbert-Lárus-Steini-Halli-Óli Sig.        Steini-Lárus-Siggi-Halli-Óli Kol.

                         1977

Pétur-Finnur-Halli-Tryggvi-Geiri-Lárus-Steini

  
 1. 7" Eik 1975

 
 2. LP Speglun 1976 (Demant)
 
 
 3. LP Hríslan og  Straumurinn 1977 (Steinar)

Hljómsveitin Eik varð til skömmu fyrir páska árið 1972. Gestur Guðnason sem áður hafði leikið með Töturum, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari sem spilað hafði með ýmsum sveitum m.a. Pops, og trommuleikarinn Ólafur Sigurðsson sem komið hafði við í Zoo, Pops og Tilveru, teljast frumstofnendur Eikarinnar. Þeir hófu að æfa saman undir bílaþvottastöðinni í Sigtúni. Um það bil hálfu ári síðar bættist gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon í hópinn en hann hafði áður spila með nokkrum líttþekktum bílskúrshljómsveitum. Ári eftir stofnun Eikarinnar kom Lárus Grímsson til leiks með flautuna sína og síðar hljómborðið. Hann hafði áður spilað með Haraldi í hljómsveit sem nefndi sig Litli matjurtargarðurinn.

Þessi liðskipan sat á löngum og þungum djammsessionum og samdi eigið efni og gaf sköpunargleðinni að öllu lausan tauminn. Um tíma æfðu tveir blökkumenn með bandinu og komu þeir meðal annars fram með hljómsveitinni á tónleikum í Klúbbnum sem var veitingastaður við Borgartún. Þar vöktu þeir athygli, voru reyndar púaðir niður ef tveim hálfdrukknum kynþáttafordómabolum og var reyndar vísað úr landi í nokkru síðar. Gestur hætti með Eikinni í kjölfarið en nokkru síðar gekk söngvarinn Árni Sigurðsson í hljómsveitina. Með þessa skipan lék Eikin fram á árið 1974 en aðalvígstöðvar bandsins voru í Tjarnarbúð. Það háði sveitinni verulega að vera aðeins með frumsamið efni á þessum tíma og gerði það Eikinni erfitt um vik hvað peninga fyrir ballspilamennsku varðaði.

Nokkru fyrir áramótin urðu söngvaraskipti þegar Herbert Guðmundsson kom í stað Árna, en dvaldi þó ekki lengi því honum var boðin staða Péturs Kristjánssonar í framlínu rokkhljómsveitarinnar Pelican, þegar sú sveit rak söngvarann og hugði á frægð og frama í útlöndum. Vinsældir sveitarinnar jukust talsvert við þessar mannabreytingar og enn frekar þegar Sigurður Kristmann Sigurðsson bættist í hópinn, áður hafði hann verið með líttþekktum sveitum. Eftir þessar mannabreytingar og liðsflutninga héldu þeir Eikarmenn í hljóðver og tóku upp efni á litla plötu sem gefin var út af Demant útgáfunni. Axel Einarsson, þekktur tónlistarmaður og síðar útgefandi tók að sér umboðsmennsku fyrir Eikina.

Á þessum tíma hafði Eikin sakapað sér orð fyrir frumsamdar lagasmíðar í þungum fönktakti og þótti ein vandaðasta sveitin á markaðnum. Axel bókaði sveitina um land allt. En Eikin gekk ekki sem ballhljómsveit þar sem coverstuðlögin voru ekki fyrir hendi. Því tóku þeir, að áeggjan umboðsmannsins, upp á því að búa til hljómsveitina Deildarbungubræður. Þar rugluðu menn hljóðfærum og var allur mannskapurinn, nema sumir úr sveitinni, nýttur. Bílstjóri Eikarinnar; Bragi var fenginn á bassa,  Þorsteinn trommaði, Lárus og umboðsmaðurinn Axel spiluðu á gítar. Þessi hópur kom fram í pásum hjá Eikinni og gerði þvílíka lukku að Eikin varð aufúsugestur í félagsheimilum landsins ef Deildarbungubræður kæmu með þeim.
Enn urðu mannabreytingar þegar Ólafur trommari lét nafna sínum Kolbeins eftir trommukjuðana. Axel hafði hug á að fá sveitina í að gera LP plötu. Vorið 1976 var Hljóðriti í Hafnarfirði tekinn herskildi af sveitarmeðlimum og aðstandendum. Fyrst var ráðist í að taka upp sólóplötu Axels sem fékk heitið Acting like fool, þá tóku Deildarbungubræður upp fyrri plötu sína Saga til næsta bæjar og loks var plata Eikarinnar, Speglun, sett á band. Plata Deildarbungubræðra fékk ekki háa einkunnir hjá poppskríbentum sem töldu plötuna eina þá lélegustu sem komið hefði út þrátt fyrir stuðið. Plata Eikarinnar innihélt þann anda sem sveitin hafði skapað sér allt frá fyrstu tíð, löng ósungin og þung danstónlist, og virtist hún ganga í tónlistarspegulerantana og varð til þess að Eik var valin hljómsveit ársins af lesendum Dagblaðsins. Þessi niðurstaða kom öllum nokkuð á óvart því flestir höfðu búist við að sjá hljómsveitir eins og Stuðmenn, Ðe lónlý blú bojs eða Paradís með þennan titil. Að auki var svo hljómsveitin valin næst bjartasta vonin, en hljómsveitin Celsíus hreppti þann titil.

Sem Deildarbungubræður seldu þeir fleiri plötur en Eikin sem leiddi til þess að Axel hætti sem umboðsmaður og snéri sér að Deildarbungubræðrum. Í kjölfar þess urðu miklar mannabreytingar á Eikinni. Trommarinn Ásgeir Óskarsson og hljómborðsleikarinn Pétur Hjaltested munstruðu sig inn en báðir höfðu áður verið í Paradís Péturs Kristjánssonar, auk þess sem fyrrum meðlimir Cabaret þeir Tryggvi Hübner á gítar og söngvarinn Finnur Jóhannsson komu inn. Þessir fjórir meðlimir auk Haralds, Lárusar og Þorsteins voru síðar kallaðir stóra Eikin, til aðgreiningar frá upphaflegri liðskipan. Saman tóku þeir félagar upp seinni LP plötu hljómsveitarinnar, Hríslan og straumurinn, ólíkt fyrri plötum sveitarinnar voru lögin nú með íslensku heiti. En að öðru leiti var svipuð uppbygging á plötunni og þeirri fyrri þar sem helmingur laganna var ósunginn. Steinar gaf plötuna út níu mánuðum eftir að fyrri platan hafði komið og bauð árs ábyrgð á plötunni sem þó fáir nýttu sér að gagnrýnendum undanskildum sem hentu gaman að uppátækinu.

Fyrir jólin 1977 var ljóst að áhugi fyrir sveitinni var þverrandi meðal hljómsveitarmeðlima, sem flestir voru komnir til annarra starfa þar sem þessi sjö manna sveit náði ekki að skila þeim tekjum sem þurfti til þess að lifa á spilamennskunni, og var því ákveðið að bera Eikina til grafar.
Í lok aldarinnar blómgaðist hún þó eitt andartak á ný með breyttri liðskipan en markaði þó engin ný spor, hvorki í sögu sveitarinnar né tónlistarsöguna.

Bárður Örn Bárðarson

Ef þið hafið upplýsingar, sendið á:
hammond@simnet.is

Uppfært 30-08-09