HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 600
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 6495848
Samtals gestir: 333963
Tölur uppfærðar: 10.12.2018 05:28:00

Utangarðsmenn

Utangarðsmenn ársbyrjun 1980-Ágúst 1981 / 2000
Mike spurði Bubba hvernig The Outsiders bók Colin Wilson er þýdd sagði hann Utangarðsmenn, þannig kom nafnið
Ásbjörn Kristinsson Morthens (Bubbi) - Söngur 1980-1981 / 2000 (06-06-56)
Michael Dean Pollock - Gítar, Söngur 1980-1981 / 2000
Daniel Pollock - Gítar 1980-1981 / 2000 (24-09-58)
Magnús Stefánsson - Trommur 1980-1981 / 2000
Rúnar Erlingsson - Bassi 1980-1981 / 2000


Bubbi-Rúnar-Danni-Mikki-Maggi

 
 1. EP (Ha-Ha-Ha) Rækjureggae 1980 (1. október Steinar)
 
 
 2. LP Geislavirkir 1980 (27 nóvember Steinar)
 
 
 3. EP 45 rpm 1981 (27. apríl Steinar)
 
 
 4. EP 45 rpm (english version) 1981 (Steinar)
 
 
 5. LP Utangarðsmenn tónleikar sumar 1981 / 1994 (Smekkleysa)
 
 
 6. LP Í upphafi skyldi endirinn skoða 1981 (20 október Steinar)
 
 
 7. LP Fuglinn er floginn 2000 (febrúar Skífan)

Utangarðsmenn

Upphafið á sögu Utangarðsmanna má rekja til Kassagerðar Reykjavíkur, sem var vinnustaður Bubba Morthens um hríð haustið 1977. Þar kynntist hann bræðrunum Mike Pollock og Danny Pollock. Næstu misseri styrktu þeir vináttusambönd sín. Fljótlega eftir að Bubbi hóf upptökur sinnar fyrstu sólóplötu í Tóntækni. um mitt ár 1979 fóru þeir bræður að vera með honum í hljóðverinu og leika með honum inn á nokkur laganna. Hugmynd Pollock bræðranna um að stofna hljómsveit var framkvæmd snemma árs 1980 og auglýst var eftir trommu- og bassaleikara.

Mike
: Það komu ekki margir í viðtal vegna auglýsingarinnar. En ég man þegar Maggi kom. Ég spurði hvort hann gæti trommað All the long watchtower með Bob Dylan, hann svaraði því játandi. Það var þó ekki það sem réði úrslitum, heldur að hann var í svo helvíti flottum leðurjakka. Hann var í rauninni ráðinn þarna á staðnum út á það eitt hvað leðurjakkinn hans var brjálæðislega töffaður.

Nokkru síðar mætti Maggi svo með Rúnar með sér á æfingu sem bassaleikara en þeir félagar höfðu báðir búið á Raufarhöfn. Bubbi vildi nota þá til að endurvinna grunna að laginu Færeyjarblús. Mikki bætti síðan gítarspili ofan á grunnana og við það breyttist útsetnings lagsins og rokkaðist það verulega. Bubbi söng síðan inn nýjan texta eftir Gunnar Ægisson nokkrum dögum seinna og negldi þar með síðasta naglann í lagið Jón pönkari, sem var fyrsta lagið sem sett var á plötu eftir hljómsveitina Utangarðsmenn. Færeyjarblúsinn stóð hins vegar eftir óbreyttur, en Jón pönkari var fæddur. Um líkt leyti gaf Bubbi sveitinni nafnið Utangarðsmenn. 22. mars 1980 var sveitin tilbúin til að þreyja frumraun sína með dansleik í Félagsstofnun Stúdenta við Hringbraut. Helgina eftir fengu þeir að spila án endurgjalds á Hótel Borg, og skemmst er frá að segja að þeir fylltu Borgina, helgina eftir buðust þeir til að spila þar á ný en nú gegn greiðslu. Sveitin komst þó ekki á kortið fyrr en hún sté á svið á sögulegum tónleikum í Félagsheimilinu í Kópavogi, sem haldnir voru 12. apríl 1980 undir yfirskriftinni heilbrigð æska. Í kjölfarið birtist heilsíðu grein í Þjóðviljanum og eftir þá umfjöllun kepptust fjölmiðlar um að taka viðtöl við sveitina og Bubba. Það kom fáum á óvart sem heyrt höfðu í Utangarðsmönnum þegar þeim var boðið að hita upp fyrir bresku sveitina Clash er hún hélt tónleika í Laugardalshöll 21. júní 1980, tæpri viku eftir að Ísbjarnarblúsinn, fyrsta sólóplata Bubba kom út.

Útgefendur voru heldur ekki seinir á sér og Steinar hf undirritaði samning við sveitina og Bubba um líkt leyti. Utangarðsmenn hófu þeysireið um landið þvert og endilangt við takmarkaða hrifningu landsbyggðarinnar. Tónleikum sveitarinnar var misvel tekið, enda fólk ekki vant að fá fimm gargandi villirokkara í heimsókn í settleg félagsheimilin. Smám saman vann þó sveitin á.

Fyrsta afurð Utangarðsmanna kom á markað þann 1. október 1980. Þetta var smáskífan Ha-ha-ha (Rækju-Reggae) sem innihélt tvær útgáfur titillagsins auk laganna 13-16 og Miðnesheiði. Bandið var þá þegar orðið leiðandi fyrir þá rokkbyltingu sem skollin var á landið. Utangarðsmenn voru fimm ungir, reiðir menn sem ekkert gáfu eftir, málamiðlun var ekki til í orðabókinni. Tónlist sveitarinnar var rokk með öllum þeim krafti og útgeislun sem fylgt gat þeirri tónlist árið 1980, textarnir hápólitískir þar sem örvum var skotið í allar áttir. Þetta ásamt því að Utangarðmenn voru vel spilandi band lagði grunninn að vinsældum sveitarinnar. Síðar sögðu þeir frá því að meðan sveitin starfaði hafði hún sjaldnast æfingarhúsnæði, tónleikar sveitarinnar voru þeirra æfingar og oft hafði sveitin varla prufukeyrt nýtt lag saman þegar þeir fluttu það á tónleikum.

Önnur plata Utangarðsmanna var Geislavirkir sem talin var tímamótaverk íslenskrar rokksögu þegar hún kom út í nóvember 1980. Lög eins og Sigurður var sjómaður, Kyrrlátt kvöld og Hiroshima voru eðalsteinar sem spörkuðu allri meðalmennsku út af sviðinu. Á sama tíma og platan kom út stóðu yfir miklar ritdeilur á síðum dagblaðanna um textagerð Bubba Morthens, þar sem hver fræðingurinn á fætur öðrum geystist fram á ritvöllinn og varð það til þess að heljarmikið málþing var haldið í Háskólabíói um hvort textar Bubba væru leirburður eða ljóðlist.

Sveitin lét sér þetta í léttu rúmi liggja og hélt sínu striki að spila hvar sem færi gafst og var reyndar þegar þetta gerðist í miðri  þeysireyð um landið, og nú með öllu betri árangri en í fyrra skiptið hvað aðsókn varðaði. Utangarðsmenn drógu gjarnan með sér sér yngri og efnisminni sveitir sem upphitunarbönd. Þannig voru þau ófá nýliðapönk- og rokkböndin sem fengu tækifæri gegnum þann kraft sem fylgdi sveitinni. Bubbi var fljótlega gerður að persónugerfingi rokkbylgjunnar og fyrirliða hljómsveitarinnar af blaðapressunni og dreginn fram í sviðsljósið sem stærsta rokkgoð sögunnar, þrátt fyrir yfirlýsingar hljómsveitarmeðlima þess efnis að þar á bæ væru þeir fimm einstaklingarnir sem sveitina skipuðu og allri stéttarskiptingu hafnað innan sveitarinnar og þar stæði enginn einn öðrum framar.

Vorið 1981 kom svo út stuttplatan 45 prm sem var sex laga plata. Sú var allfrábrugðin fyrri plötum og munar þar mestu að rokkið er harðara, laglínan ekki eins auðgrípanleg og á fyrri verkum sveitarinnar, hlutur Bubba í textagerðinni mun minni en áður hafði verið auk þess sem Mike Pollock kemur oftar fyrir í hlutverki aðalsöngvara. Um líkt leyti og platan kom í hillur verslana ákvað sveitin að halda í tónleikaferð um Evrópu og var flogið til Rotterdam þar sem ferðin var undirbúin frekar, síðan keyrt og spilað í Hollandi og Þýskalandi, þaðan var farið til Svíþjóðar þar sem meðal annars voru hljóðritaðir tónleikar sem síðar komu út á plötunni Utangarðsmenn árið 1994. Þar í landi var líka gefin út ensk útgáfa plötunnar 45 rpm sem er frábrugðin þeirri íslensku að því leiti að allir textar plötunnar eru á ensku og lagavalið lítillega annað.

Reyndar voru flestöll lög Utangarðsmanna einnig sungin inn á ensku þegar bandið var við hljóðritanir þó svo fæst af þeim hafi verið gefin út. En þó var á sínum tíma sett saman ensk útgáfa af plötunni Geislavirkir með hugsanlega útgáfu erlendis í huga, en útgáfufyrirtæki sveitarinnar, Steinar hf, var á þessum tíma að kynna bæði Mezzoforte og diskótvíeykið You & I, sem hér heima var þekkt sem Þú og ég, á erlendum mörkuðum. Aldrei varð þó af útgáfu Geislavirkra Utangarðsmanna á ensku.

Meðan á áður nefndri Evrópuferð sveitarinnar stóð gengu þær sögur ljósum logum að sveitin væri að leggja upp laupana og þótti mörgum það sannað þegar sveitin kom heim fyrr en ætlað var. Í júlí kom svo á markað önnur sólóplata Bubba, Plágan, þar sem flestir meðlima hljómsveitarinnar koma við sögu, en ekki allir. Útgáfa hennar ýfði enn betur upp orðróminn um að andlát sveitarinnar væri í sjónmáli og við bættust sögur þess efnis að innan Utangarðsmanna væri djúpstæður ágreiningur vegna pólitískra texta Bubba. Meðlimirnir reyndu að bera þessar sögur til baka bæði með yfirlýsingum og blaðaviðtölum. Máli sínu til stuðnings efndi sveitin til heljartónleika í Háskólabíói þann 15. ágúst 1981. Þeir tónleikar reyndust þó svanasöngur hljómsveitarinnar Utangarðsmanna næstu 20 árin eða svo, og eins og meðlimir hennar sögðu síðar, hún lognaðist ekki útaf, hún sprakk í loft upp.

Í árslok 1981 kom svo út safnplatan Í upphafi skyldi endirinn skoða, er hafði að geyma nokkur vinsælustu lög sveitarinnar auk áður óútgefinna laga. Bubbi kom fljótlega fram með hljómsveitina Egó, en aðrir meðlimir héldu áfram um tíma undir heitinu Bodies. Það varð uppi fótur og fit þegar hljómsveitarmeðlimir birtust óvænt á sjónvarpsskjá landsmanna í þættinum Stutt í spuna veturinn 1999 og fluttu þar tvö lög. Þessi endurkoma vakti þá hugmynd Pollock-bræðra að fá sveitina til frekara tónleikahalds. Eftir allskyns bollaleggingar og fundahöld náðust samningar og útkoman var áætluð fimm tónleikar á jafnmörgum stöðum á landinu á miðju árinu 2000. Æft var af kappi fyrir tónleikaferðina, blaðamannafundnir haldnir og viðtöl veitt, í miðjum klíðum var hljóðritað samnefnt lag fyrir kvikmyndina Íslenski draumurinn, auk þess sem tvöföld safnplata sveitarinnar Fuglinn er floginn kom út, en hún hefur að geyma það efni sem gefið hafði verið út á vinýlplötum á sínum tíma. Tónleikaferðin, sem þó urðu aðeins fjórir tónleikar, hófst 14. júlí á Neskaupstað og endaði með eftirminnilegum tónleikum í yfirfullri Laugardalshöll 23. júlí. Líklega var þessi tónleikaferð þeirra félaganna ein best sótta ferðin á ferlinum sé horft til fjölda tónleikagesta.

Bárður Örn Bárðarson

Uppfært 19-04-07