HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 6495615
Samtals gestir: 333920
Tölur uppfærðar: 9.12.2018 18:36:15

Sníglabandið

Sníglabandið (Fyrsta giggið 17. Október 1985) 1985-
Skúli Gautason (Snigill nr.6) - Spilaði smá á bassa 1985, söngur og fór fljótlega á gítar 1985-1995 / 2002- (25-10-59)
Sigurður Kristinsson (Kollþryktur) - Trommur 1985 fór fljótlega á gítar 1985-1987
Bjarni Bragi Kjartansson - Bassi 1985-1990
Ólafur Guðmundsson - Söngur 1985
Ásgeir Sverrisson - Gítar 1985
Björgvin Ploder - Trommur og söngur 1985-
Einar Rúnarsson - Hljómborð 1986-
Stefán Hilmarsson - Söngur 1986-1988 (66)
Baldvin B. Ringsted - Gítar 1987-1990
Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson - Bassi 1990-1993 / 2002-
Þorgils Björgvinsson - Gítar og söngur 1990-
Pálmi Jósef Sigurhjartarson - Hljómborð 1992- (25-10-65)
Þórður Högnason - Bassi 1994
Jakob Smári Magnússon - Bassi 1995-1996
Eiður Arnarsson - Bassi 1996
Tómas Magnús Tómasson - Bassi 1997-1998


Skúli-Einar-Pálmi-Þorgils-Bjöggi-Friðþjófur

 
1. EP Fjöllin falla í hauga 1986


2. EP Áfram vegin - með meindýr í maganum 1987 (Sníglabandið)


3. EP Til hvers þarf maður konur 1988


4. LP rativfláhgosnieðitálikkeðivmuteG (lifandi) 1991


5. LP Þetta stóra svarta 1992


6. LP Gull á móti sól 1995 (Slím)


7. LP Sníglabandið 1985-1995 (Slím)


8. LP Eyjólfur hressist 1996 (Slím)


9. LP Ágúst kemur klukkan tvö 1997 (Slím)


10. LP Rúvtops 2006 (@blush)

Saga Sniglabandsins - rituð af Skúla Gautasyni ofl. 

 ______________________________________________________________________________

Sniglabandið varð til í litlu húsi við sjóinn.
Þar höfðu saman komið mótorhjólamenn um og eftir að 
Þar háttaði vel til um bílastæði og nágrannarnir voru seinþreyttir til kvartana. 
Húsráðendur voru bifhjólakappar af hugsjón og þótti sýnt að þó innan  
þessara nýstofnuðu samtaka væri gnótt sérlega eðlilegs fólks, þyrfti 
að bæta ímynd bifhjólamanna gagnvart almenningi.  

Þarna bjuggu þeir Skúli Gautason, snigill nr. 6, leiklistarnemi og bassaleikari 
í hljómsveitinni "Pungó & Daisy" og Þormar Þorkelsson, snigill nr. 13, járnamaður, 
heimspekingur og mótorhjólatöffari af Guðs náð. 
Saman skipuðu þeir Lagavalsnefnd Bifhjólasamtakanna.  
Lagavalsnefndin sá um að velja lög til söngs á samkundum Sniglanna  
og réði því hvort lögin sem sungin voru væru þekkt eður áður óþekkt. 
Eftir ítrekað fundahald komst nefndin að því að hæfileg lög til slíkrar 
brúkunar skorti átakanlega. Lagavalsnefndin fór því eins og hún lagði 
sig í hljóðver og hljóðritaði tvö lög á tveimur klukku- stundum, 
Þríhjól og Jólahjól. Skúli sá um allan hljóðfæraleik nema hvað  
hugljúft flautusóló í Jólahjóli var leikið af Sigríði Eyþórsdóttur.  
Halldór Sigtryggsson tókst snarlega á hendur hættulega för til  
Englands og kom segulbönduðum upptökum laganna yfir á "master", 
þaðan yfir á "mömmu" hver gat af sér "stampera" og innan viku voru þessi  
lög þrykkt á vinyl og gefin út í hvítu umslagi sem var jafnan myndskreytt 
að ósk kaupanda með svörtum tússpennum sem sölumenn báru djúpt í vösum sér.
Platan sú fékk aldrei nafn né heldur fór hún í búðir enda seldist hún snarlega 
upp og er orðinn eftirsóttur safngripur.  
Þetta nafnlausa afkvæmi Lagavalsnefndarinnar var af hugvitsemi gjört 
með sléttum fleti yst þannig að halda mátti áfergjulega á plötunni  
með kámugum fingrum, jafnvel naga hana utanvert án þess að niður 
kæmi á hljómgæðum því hinar ofurlitlu raufar sem nálar plötuspilaranna  
dönsuðu síðan eftir kúrðu nær miðju. Fullyrða má að þetta sé eina  
platan í veröldinni sem hefur verið framleidd með slíku handfangi.  

Fljótlega varð ljóst að innan Bifhjólasamtakanna væri eitthvað af  
tónlistarmönnum og var ákveðið að reyna að koma saman Sniglabandi.  
Sett var auglýsing í málgagn samtakanna, Sniglafréttir og tónleikandi  
menn beðnir að hafa samband við Lagavalsnefnd. Varla hafði blekið 
þornað á mál- gagninu er síminn hringdi í litla húsinu við sjóinn.  
Á hinum endanum var bifhjólakappi, Sigurður Kristinsson, þekktari  
undir nafninu Kollþrykktur. Kvaðst hann vera gítarleikari lipur mjög. 
Skúli ræddi við hann af raunsæi sínu og tjáði honum áhyggjur sínar  
af trommuleikaraleysi. Kollþrykktur hélt það nú ekki vera vandamál;  
sjálfur væri hann einmitt sérstaklega góður trommuleikari. Grípum niður í samtalið. 

Skúli: Ég skil...en áttu trommusett ?
Kollþrykktur: Nei en ég kaupi mér bara sett !
Skúli: Hefurðu spilað eitthvað á trommur ?
Kollþrykktur: Ég æfi mig bara og verð fínn !
Skúli: Ha já humm. Heyrðu - kauptu trommusett, æfðu þig og talaðu svo við mig. 

Ekki höfðu liðið nema u.þ.b. 18 klukkustundir uns síminn hringdi á ný í  
litla húsinu og hafði Kollþrykktur þá þegar keypt sér rautt trommusett af  
yfirstærð (á víxli til eins sólarhrings) og var, þó ótrúlegt megi virðast,  
búinn að ná tökum á öllum þeim aragrúa tromma sem í trommusettinu bjuggu.
Frést hafði af slána á Yamaha-hjóli er þætti liðtækur í jazzinum. Jazz er náttúrulega 
hið versta óféti en reynandi þótti að hrista þá ónáttúru úr kauða og  
gera úr honum rokkgítarista. Þegar til kom reyndist sláninn heita Bjarni Bragi,  
ekki vera gítarleikari heldur álháll bassaleikari og hafa öll helstu rokktrikkin 
á hreinu þannig að Skúli vék umsvifalaust úr sæti sínu sem bassaleikari 
og tók sér ryþma- gítar eða hryngígju í hönd. Bandið var að verða ballfært. 

Fyrsta giggið var bókað. Það færi fram þann 17. okt 1985 í félagsheimilinu í  
Garðinum suður með sjó. Söngvarinn Ólafur Guðmundsson Mótorskussi fór  
í klippingu til Bryndísar brúsks og mætti með alla liti þessa heims 
og annars í hárinu. Ásgeir Sverrisson gítarjaxl með ómælda reynslu kom úr 
rokkheimum á síðustu stundu og fleytti bandinu í gegnum þessa eldskírn og 
viti menn; kofinn nötraði en bandið var ekki púað niður. Það var púað upp. 
Kannski var þetta mistúlkun en ballið kom allavega út í mínus auralega séð.
Hann var greiddur úr annars tómum vasa með glöðu geði. Mínusinn stafaði af  
því að leigja þurfti átta gata amerískan van undir bandið og helstu grúppupíurnar. 
Það kostaði sitt en það varð bara að hafa það. Van skyldi það vera.  
Fyrst bandið hafði sloppið í gegnum þessa þolraun var ekki eftir neinu að bíða, 
nú skyldu bókuð gigg hægri vinstri og rakað saman seðlum.  
Bandið fór í hljóðver og hljóðritaði snilldarverkið "Margt býr í þokunni".  

Illa gekk að finna sólógítarista ellegar einleiksgígjuslagara sem tæki Kollþrykktum 
fram en hinsvegar fréttist af trommara, sniglastráki utan af nesi sem væri  
þéttari en andskotinn, svo notuð séu orð hinna ónafngreindu heimildarmanna. 
Björgvin Ploder var ráðinn í bandið umsvifalaust. Kollþrykktur tók sér  
gítarinn í hönd og heyrðist jafnan hátt í honum.
Bandið hélt áfram að bólgna - nú skyldi ráðinn hljómborðsleikari.  
Einar Rúnarsson, svartur djöfull sem hafði verið í löggunni kom í skúrinn í test. 
Honum var tekið með fyrirvara enda hafði frést að hann væri að festa kaup 
á Chesterfield-sófasetti með afborgunum. Það þótti mönnum helst 
til vísitölu- bundið. Það var ekki fyrr en hann hristi Toccötu og fúgu 
eftir Bach fram úr erminni að menn féllu í stafi og hann hreppti  
hnossið (hnossið ??? aths. útg.). Einar hafði áður leikið með Björgvini í hinni 
vinsælu kvennahljómsveit "Bjargvættinum Laufey".  
Félagi þeirra þaðan var kvaddur til söngs og þótti sýnt að hér væri efni í barka; 
Stefán Hilmarsson var kominn í Sniglabandið áður en haninn gól tvisvar.  

Það var ekki auðvelt að bóka gigg fyrir óþekkta hljómsveit sem tengdist  
mótorhjólaruddunum í Sniglunum, gott ef þeir voru ekki allir dópistar og morðingjar. 
Þó áttu litlu hljóðfæraleikararnir vini á ólíklegustu stöðum og það atvikaðist 
svo að næsta ball varð áramóta dansleikur í Félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn á Langanesi.
Þetta var mikil svaðilför fyrir óreynda aula um hávetur.  
Leigður var ofurlítill kælibíll undir græjurnar og Lada fengin að láni undir mannskapinn. 
Ballið gekk upp, frú hreppstýran bauð í mat og allt var gott. Bandið var komið á legg. 

Í hönd fóru ár þjóðvegaryks og krappra kjara. Bandið spilaði á menntaskóla-  
og sveitaböllum þegar þau gáfust. Skúli komst í tæri við aflóga pylsuvagn 
frá Eskifirði og festi kaup á honum sem hljómsveitarbíl. Bíllinn hafði einhverntíma 
verið hvítur, á hann voru málaðar myndir af pylsum, hamborgurum  
og öðru góðgæti með ryðvarnarmálningu; upp úr þakinu stóðu  
strompar og út um sölulúgu á hliðinni lagði gamlan daun kokkteilsósu 
og djúpsteikingarfeiti. Mönnum leist illa á þessi kaup en viti menn;  
ekki hafði hann fyrr verið skrúbbaður af steikingarlykt og málaður svartur  
en nýju eigendunum hans fór að þykja undurvænt um hann og þjónaði 
hann hinum nýju herrum sínum vel og gerir enn. 

Sniglabandið fór í hljóðver til meginpopparans Rúnars Júl og  
hljóðritaði sína fyrstu plötu Fjöllin falla í hauga (1986).  
Platan þótti lofa góðu og vakti væntingar.  

Í þá daga var Akureyri paradís á jörð blankra poppara. Ættu menn fyrir  
bensíni og sígarettum var brunað norður og dvalist í vellystingum  
uns suðurför varð ekki umflúin. Stefán keypti sér mótorhjól nyrðra  
en slasaðist á leiðinni suður og hvekktist.
Bandið fór í Hljóðrita og tók upp plötuna Áfram veginn - með meindýr í maganum  
(1987) en á henni er m.a. að finna meistaraverkið "Járnið er kalt". 

Kappi úr höfuðstað hinna harðmæltu snigla reyndist vera hinn liðtækasti 
gítaristi og hafa góðan húmor enda fór það svo að einhverju sinni er  
Kollþrykktur þreyttist ógurlega og sagði stöðu sinni lausri var hringt  
norður og Baldvin B. Ringsted talinn á að koma suður og spila sér leið til frelsis. 
Hann féllst á það. Stefán var sendur í Euro- vision og mannaðist mjög.  
Honum þótti lítil framavon meðal mótorhjólamanna og kvaddi Sniglabandið.  
Ýmsir spáðu því að bandið myndi liðast í sundur við þá blóðtöku þar eð  
vandfundinn yrði sá söngvari er fyllti það skarð er Stefán skildi eftir en 
Snigl- bendingar tóku saman höndum (og röddum), hófu upp raustir sínar 
og sungu sig í gegnum þessar raunir. Einkum kyrjuðu þeir Skúli og Björgvin fjálglega.  

Bandið átti undir högg að sækja og þegar það var ráðið til að spila ásamt 
nokkrum öðrum helstu hljómsveitum landsins á mikilli útihátíð  
á Melgerðismelum var ákveðið að taka hátíðina með trompi.  
Bandið lagði undir sig lítið hús á Akureyri sem var kallað Rússland en  
þar bjuggu þrjár ungar stúlkur. Niðurkeyrð þjóðvegarolla var elduð í súpu  
sem dygði mannskapnum í viku og stíft æfinga- prógramm upphófst.  
Sálusorgari og fóstra hljómsveitarinnar, Þormar Þorkelsson ræsti liðið  
fyrir allar aldir og rak á æfingu. Í félagsmiðstöðinni Dynheimum var  
búið til líkan af sviðinu á Melgerðismelum og ekki bara lögin heldur 
rokkhnykkirnir, svipbrigðin og skiptingarnar æfðar í þaula og síðan  
enn og aftur. Björgvin Gíslason var dreginn blásaklaus úr veiðitúr til 
að ná hinu eina sanna "alle tiders rokk & roll sándi".
Eftir tónleikana heyrðist á tal keppinautanna úr hljómsveitinni  
Skriðjöklum og var þeim mikið niðri fyrir:
Raggi: Heyrðirðu í Sniglabandinu ?
Kolli: Já...
Raggi: Heyrðirðu 750 cc blús ?
Kolli: Já...
Raggi (rífur í handbremsuna): Feykilega heyrir þú vel !

Platan Til hvers þarf maður konur (1988) var tekin upp í Stúdíó Stef í Kópavoginum. 
Upptökumaður og sérstakur ráðunautur var Lárus H. Grímsson. Mikil vinna var  
lögð í hljóðblöndun; Sniglabandið vildi skapa sér "sánd" sem hefði sérstöðu.  
Segulbönd með upptökunum hljóðblönd- uðum voru síðan send  
til Bretlands til "master- ingar". Það gekk ekki þrautalaust að fá  
plötuna pressaða því breskum tæknimönnum þótti platan hljóma 
svo einkennilega (en það átti hún einmitt að gera) að þeir tóku sér  
það bessaleyfi að breyta "sándinu". Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en búið 
var að pressa mörg hundruð eintök af plötunni. Framleiðslan var þá  
stöðvuð og upptökurnar sendar til Bretlands á ný. En viti menn 
- aftur var "sándinu" breytt en í þetta sinn var ákveðið að láta slag standa.  

Lögin af þeirri plötu heyrast á safndisknum í fyrsta sinn í því "sándi"  
sem þeim var upphaflega ætlað.
Þegar platan kom loks úr pressun voru menn orðnir langspenntir eftir henni. 
Það þótti rétt að nota þessa spennu í að selja plötuna.  
Kassar af plötum voru bundnir aftan á mótorhjólin og brunað niður í bæ.  
Varla höfðu menn hallað hjólunum á standarana niðri í Austur- stræti 
og tekið plöturnar upp úr kössunum en söngur heyrðist nálgast: 
En þori ég, vil ég, get ég? Já ég þori, get og vil! Þar komu 
kvennalistakonur í vígamóð marsérandi með kröfuspjöld til 
baráttufundar við stjórnarráðið.  
Þetta var afskaplega sérkennileg staða. Það eina sem sæmdi  
köppum af hetjukyni var að leggja til atlögu við drekann og reyna 
að selja kvendunum plötur og viti menn; með fádæma 
harðfylgi og elju tókst stórsjarmörnum Bjarna Braga að selja  
einni á hárauðum sokkum plötu. Þá var hann hetjan í hljómsveitinni.  

Sniglabandið hafði á langdvölum sínum fyrir norðan og í samlífi á  
þjóðvegum landsins þróað með sér ákveðna hagfræði sem gjarnan  
var nefnd "and-markaðshyggja" en samkvæmt henni þótti rétt að gera 
alltaf það sem markaðsöflin bjuggust síst við í hverju tilfelli.  
Þegar platan Til hvers þarf maður konur var loks gefin út hefði  
sjálfsagt verið markaðsvænt að fylgja henni eftir með tónleikahaldi  
og kynningu. Sniglabandið fór hinsvegar í frí um leið og platan  
kom út og lét ekkert í sér heyra um hríð.  

Árið eftir (1989) ákvað hljóm- sveitin að fara í hljómleikaferðalag  
til Sovétríkjanna sálugu. Þrátt fyrir ótrúlegt skrifræði, margvísleg vand-  
ræði við leyfisveitingar og umstang af ólíkegasta tagi fór hljómsveitin á  
fimm mótorhjólum ásamt Friðþjófi Ísfeld Sigurðssyni hljóðmanni  
og fylgdarliði á flutningabíl í mánaðarlangt ferðalag innan Sovétríkjanna.  
Það ferðalag yrði allt of langt mál að rekja hér enda hefur  
ferðasagan "Sovétför Sniglabandsins" verið rituð af Skúla og myndskreytt 
af Einari og verður væntanlega gefin út í heild sinni innan tíðar.
Er skemmst frá því að segja að ferðalag þetta tókst með eindæmum 
vel og er ævintýri sem lifir í hugum hljómsveitarmanna. 

Þegar heim kom fannst Bjarna Braga tindinum vera náð og hætti í hljómsveitinni. 
Stöðu hans sem bassaleikara fyllti Friðþjófur með sóma.  
Baldvin sagði stöðu sinni einnig lausri og var Þorgils Björgvinsson ráðinn í hans stað.
Hljómsveitin gerðist nú æ fjölhæfari og tók að gera tilraunir á áhorfendum 
og -heyrendum sínum. Einkum urðu "tónleikar" á Gauki á Stöng vettvangur 
þessara tilrauna og mátti eins búast við ljóðalestri, tískusýningu eða  
heimspekifyrirlestri og tónlist. Raunar var fremur fátítt að þekkt lög væru 
spiluð og þá helst í skrumskældri mynd. Á þessum árum (1990-1992) nutu  
kvöldskemmtanir þessar á Gauknum gríðarmikillar hylli og var  
undantekningalaust húsfyllir.    

Græni diskurinn rativfláhgosnieðitálikkeðivmuteg var tekinn upp lífs eða "live"  
á Gauki á Stöng að kvöldi hins 23. febrúar 1991. Upptökumaður var Jón Skuggi.
Síðla árs 1992 var ráðinn sjötti maður í bandið; Pálmi Jósef Sigurhjartarson píanisti.  
Hann þótti einnig sleipur laga- höfundur enda var stormað í stúdíó;  
"Þetta stóra svarta" var tekin upp í Sýrlandi og var ekkert til sparað  
enda fannst hljómsveitinni að hún þyrfti nú að sýna að hún væri  
"alvöru" hljómsveit en ekki "bara" grínarar.  
Upptökumaður var Gunnar Smári Helgason.  
Lögreglukórinn söng inngangshugleiðinguna "Brennivín er bull" af kostgæfni.  

Árið 1994 hittu skrattarnir ömmur sínar. Þá bar fundum Sniglabandsins saman 
við þær Borgardætur; Andreu Gylfadóttur, Berglindi Björk Jónasdóttur  
og Ellen Kristjánsdóttur ásamt bassaleikaranum Þórði Högnasyni. 
Það varð ást við fyrstu sýn enda urðu þessi tvö batterí óaðskiljanleg  
allt það sumar og fram á haust. Margir halda því fram að sjaldan eða 
aldrei hafi skemmtilegri flokkur farið um héruð enda 9 listamenn á sviðinu, 
hver öðrum skemmti- legri.
Þessi merki hópur hljóð- ritaði þó aðeins eitt lag saman; hið sykursæta "Apríkósusalsa".
Skúli hætti í byrjun árs 1995 en bandið fór í hljóðver og  
hljóðreit Gull á móti sól. Hinn góðkunni Jakob Smári Magnússon réðist sem bassaleikari.  

Þann 17. október 1995 voru haldnir miklir afmælistónleikar í Borgarleikhúsinu 
en þann dag voru nákvæmlega tíu ár liðin frá fyrstu uppákomu þessarar um  
margt undarlegu og sérstæðu hljómsveitar.  
Um vorið 1996 hætti Jakob og hinn snjalli bassaleikari Eiður Arnarsson var ráðinn.  
Eiður lék á geisladisknum "Eyjólfur" með Sniglabandinu árið 1996 sem  
Tómas M. Tómasson hljóðritaði. 

Eftir aðeins nokkra mánuði í Sniglabandinu hætti Eiður Arnarsson og  
í hans stað kom Tómas M. Tómasson sem að spilaði með Sniglabandinu  
á geilsadisknum "Ágúst kemur klukkan tvö" sem að gefin var út árið 1997.  
Tómas spilaði með Sniglabandinu fram til ársins 1998 þegar Sniglabandið var lagt 
í bleyti, nei annars það var lagt í "salt" þar sem að Þorgils Björgvinsson  
gítarleikari flutti erlendis og snéri ekki aftur fyrr en árið 2002 en þá lék 
Sniglabandið aftur saman í þeirri mynd sem að hljómsveitin var árið 1993 
þegar "Þetta stóra svarta" kom út.  

Og núna árið 2006 er Sniglabandið aftur komið með útvarpsþátt á Rás 2 
á sunnudögum kl.14:00 til 16:00 í sumar. 

Í dag, eða árið 2006, er hljómsveitin skipuð eins og hún var árið 1993 þegar 
hljómdiskurinn "Þetta stóra svarta" var gefin út. Þeir eru: 
Björgvin Ploder: trumbusláttur, söngur og baksöngur.  
Einar Rúnarsson: orgelleikur, harmonikkuleikur, varasláttur, söngur og baksöngur.  
Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson: bössun og baksöngur.  
Pálmi Sigurhjartarson: slaghörpusláttur, samþeytun, söngur og baksöngur.  
Skúli Gautason: söngur og baksöngur, kassa- og hryngígjusláttur.  
Þorgils Björgvinsson: forysturafgígjusláttur, söngur og baksöngur.

Uppfært 19-04-07