HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 191
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 390
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 6496669
Samtals gestir: 334086
Tölur uppfærðar: 12.12.2018 04:05:51

Skítamórall

Skítamórall 1989-
Einar Bárðarsson kom með nafnið.
Arngrímur Fannar Haraldsson - Gítar 1989-
Gunnar Ólason - Söngur og gítar 1989-
Herbert Viðarsson - Bassi 1989-
Jóhann Bachmann Ólafsson - Trommur 1989-
Sigurður Óli Kristinsson - Söngur 1989-1990
Kristján Eldjárn Þóroddsson - Hljómborð 1990-1991
Karl Þór Þorvaldsson - Hljómborð og ásláttur 1995-1997
Einar Ágúst Víðisson - Söngur, gítar og ásláttur 1997-2004


Addi-Hanni-Gunni-Hebbi

 
 
 1. LP Súper 1996 (Sputz)
 
 
 2. LP Tjútt 1997 (September)
 
 
 3. LP Nákvæmlega 1998
 
 
 4. LP Skítamórall 1999
 
 
 5. LP Það besta frá Skítamóral 2003 (Skífan)
 
 
 6. LP Má ég sjá 2005 (Sena)

Saga Skítamórals

Hljómsveitin Skítamórall var stofnuð á Selfossi árið 1989. Fjórir 14 ára guttar, Arngrímur Fannar Haraldsson, Gunnar Ólason, Herbert Viðarsson og Jóhann Bachman. Fyrsta æfingahúsnæðið var í kjallara gagnfræðaskólans á Selfossi og með brennandi tónlistaráhuga voru fyrstu skrefin stigin fyrir tæpum 17 árum. Fyrstu verk á efniskrá sveitarinnar voru eftir gömlu meistarana í Zeppelin, Deep Purple og Uriha Heep en fleiri síðhærðar rokksveitir höfðu áhrif á strákana. Nafn sveitarinnar var strax ákveðið á þessum tíma. Það var Einar Bárðar, bróðir Arngríms, sem lagði það til. Nafnið hafði hann hugsað sem nafn á .heavy metal. bandi sem hann ætlaði að stofna í gríni. Litli bróðir var að leita að nafni á hljómsveit sína á sama tíma. Einar sá efniskrá bandsins hjá litla bróður og stakk hann upp á að þeir fengju nafnið. Á næstu árum kom hljómsveitin fram á nokkrum tónleikum og skemmtunum á Selfossi og í næsta nágrenni.

Þrátt fyrir mikinn ungæðingshátt var öllum sem nálægt þeim stóðu þá ljóst að hljómsveitin bjó yfir miklu meiru en þær sveitir sem stóðu jafnfætis henni í aldri og reynslu. Frændurnir Gunnar og Herbert eru af stórri ætt mikilla tónlistar- og söngfólks.
Jóhann Bachman er sonur Óla Bach sem var trommari í Logum, Mána og fleiri sveitum. En fleiri komu að bandinu á þessum tíma. Sigurður Óli Kristinson tók við hljóðnemanum í eitt ár á meðan Gunnar tók út fullan söngþroska. Kristján Eldjárn Þóroddsson jafnaldri, vinur og nágranni frá Selfossi tók að sér hljómborðsleik fyrir sveitina um tíma. Báðir settu þeir svip sinn á bandið og þetta voru skemmtilegir tímar fyrir þá stráka og áhorfendur. Árið 1992 tók Skítamórall svo þátt í Músíktilraunum í Tónabæ.
Sveitin komst í úrslit en lét í minni pokkann fyrir dömunum í Kolrössu krókríðandi frá bítlabænum Keflavík. Þar með lauk fyrsta kaflanum í sögu hljómsveitarinnar. Bandið tók eins árs frí og Arngrímur og Herbert lögðu land undir fót og skoðuðu heiminn í eitt ár.

Skítamórall fór svo ekki aftur í gang fyrr en í október 1994. Vegna fjölda áskorana spiluðu þeir um jólin og áramótin 1994 og 1995. Á þessum tíma tóku þeir upp sitt fyrsta lag. Lagið var Tannpínupúkinn, lag Grýlunnar og Stuðmannsins Ragnhildar Gísladóttur við texta Andrésar Indriðasonar, andlegs föður þeirra Gláms og Skráms sem sungið höfðu lagið upprunalega á plötunni Sælgætislandið. Lagið segir allt sem segja þarf um stemmninguna í bandinu á þessum tíma. Léttleiki og spenna yfir því sem beið við sjóndeildarhringinn. Karl Þór Þorvaldsson hljómsborðsleikari og ásláttarleikari gekk til liðs við bandið um svipað leyti. Um sumarið var drengjunum boðið í tónleikaferð með Sálinni hans Jóns míns þar sem þeir komu fram í pásum. Farið var víða í þessari tónleikaferð og Skítamóralsmenn lögðu þá grunninn að því trausta sambandi sem þeir hafa átt við fólkið í landinu. Allar götur síðan hefur þessi grunnur verið ræktaður af velvild og alúð. Hápunktur sumarsins var þegar sveitinni var boðið að verða eitt af aðalböndunum í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1995.

Árið 1996 var síðan ráðist af fullum krafti að því að gefa út heilan geisladisk. Frumraunin fékk nafnið Súper og þá fór að draga til tíðinda. Lögin Danslag og Stúlkan mín náðu fádæma vinsældum enda voru þarna á ferðinni gamlar dægurlagaperlur sem áður höðfu hljómar í eyrum landsmanna í flutningi Dúmbós og Steina og Deildarbungubræðra. Einnig voru á plötunni lagið Sælan, frábært lag eftir Gunnar Óla, Geimhringurinn, Haltu á mér hita, eftir Gunnar Óla við texta Sigurðar Fannars Guðmundsonar, og Madam Bé eftir Arngrím Fannar við texta Sigurðar Fannars, sem eru bæði góð og eldast vel. Það var enginn annar en Jens Hansson Sálarmaður sem stjórnaði uppökum.

Skemmst er frá því að segja að Árni Matt hjá Mogganum missti sig þegar heyrði þessa frábæru skífu. Hann lagði sveitinni til nokkur vel valin orð í tilefni tímamótanna. Platan var framleidd og gefin út af Sputz-útgáfunni sem var í eigu Arngríms Fannars sem á þeim tíma gegndi umboðsstörfum fyrir sveitina. Þetta sumar (1996) lék sveitin á stóra sviðinu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ásamt Greifunum og SSSÓL. Sumarið leið og vetur kom og drengirnir undirbjuggu nýja plötu. Platan Tjútt kom út um vorið 1997 og lagið Skjóttu mig eftir Sigurð Fannar Guðmundsson varð nokkurs konar þemalag landsmanna það sumarið. Lagið Aparass var skrýtið en enn skrýtnara var myndbandið sem fylgdi laginu. Endrum og sinnum er það spilað á PoppTíví landsmönnum til mikillar gleði. Einnig var að finna á plötunni nýja útgáfu af Sælunni sem kom út á plötu árið áður. Sælan fór allt í einu af stað og var á tímabili í öðru sæti Íslenska listans en á listanum var lagið í tæpa þrjá mánuði, var vinsælasta lag sveitarinnar fram að þessu. Á Tjútt voru einnig upptökur af gamla Gauknum þar sem sveitin hakkaði í sig Gypsy Kings og fleiri standarda í mikilli syrpu sem hljómsveitin og plötusnúðar um allt land nota enn. Þar var líka tónleikaupptaka af Stúlkan mín. Bandið var sannarlega komið til að vera.

Útvarpsstöðin FM957 hafði tekið ástfóstri við drengina. Rás2 hélt áfram uppteknum hætti og lék lög piltanna með jöfnu millibili og meira að segja Bylgjan sem hent hafði drengjunum öfugum út bara vegna nafnsins gat nú ekki annað en tekið þátt í gamaninu. Með sveitinni og þessum útvarpsstöðvum hefur verið langt og farsælt samstarf. Skímó deildi sviðinu með Sálinni á Þjóðhátíð 1997 og sagt er að Herjólfur sjálfur hafi aldrei skemmt sér eins vel. Karl Þór Þorvaldsson var á þessum tíma orðinn þreyttur á öllum ferðalögunum sem fylgdu bandinu og vinnutímanum. Hann sagði skilið við sveitina sem kvaddi hann með söknuði. Maður kemur í manns stað og út úr Austfjarðaþokunni steig nýr liðsmaður. Einar Ágúst Víðisson tók sæti Skímó 5 og lék á ásláttarhljóðfæri og gítar og söng. Annar kafli sögu sveitarinnar var á enda og sá þriðji að hefjast.

Um haustið tók við undirbúningur að þriðju plötunni og Guðmundur Gíslason, þá .altmulig mand. hjá SSSól, tók við umboðsmennsku af Arngrími Fannari. Liðsmenn sveitarinnar voru staðráðnir í því að koma plötuútgáfunni á hærra plan. Öll lögin skyldu vera frumsamin og öllum fíflagangi stillt í hóf. En gleðin var þó aldrei langt undan. Platan var öll unnin í hljóðveri útgefandans September við Grensásveg. Vinnslan við plötuna tók lengri tíma en við fyrri plötur en viðbrögðin létu ekki á sér standa.Lagið Farin eftir Einar Bárðarson var frumlutt í 19:20, fréttaþætti Stöðvar 2, kvöldið fyrir skírdag og áður en bandið vissi af var lagið orðið það vinsælasta á Íslandi. Farin sat á toppi Íslenska listans samfleytt í 3 vikur, leiðin frá Selfossi var orðin greið á toppinn. Platan Nákvæmlega leit dagsins ljós í sumarbyrjun 1998 og varð strax mest selda plata landsins og seinna um sumarið rauf Skítamórall 5000 eintaka múrinn og fékk afhenta sína fyrstu gullplötu. Þetta voru góðir dagar fyrir sveitina og alls staðar var tóku áhorfendur henni opnum örmum.

Farin var tilnefnt til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 1998 sem besta lag ársins. Nákvæmlega var hlaðin smellum, fyrir utan Farin náðu Drakúla, lag Herberts við texta Sigurðar Fannars, Nákvæmlega eftir Arngrím og Gunnar við texta Skímómanna og Sílíkon, lag Einars Ágústs og Einars Bárðar, öll miklum vinsældum. Á plötunni var í fyrsta skipti notuð margmiðlunartækni þar sem hægt var að finna texta, myndir af bandinu, myndbönd og frjálslegri útgáfu af sögu sveitarinnar en hér er skrifuð. Skítamórall var orðin ein allra vinælasta sveit landsins. Bandið gerði samning við Heklu og fóru allir út á "Golf" eða "gólf" með einkanúmer, skímó frá eitt upp í fimm. Í kjölfarið var framleidd heimildamynd um sveitina sem sýnd var á Stöð 2.

Um jólin var gefin út bók um sveitina og því fylgdi mikið fjölmiðlafár. Einar Ágúst og Gunnar Óla sungu jólalagið Handa þér inn á plötuna Skemmtileg þessi jól. Lagið sem er eftir Einar Bárðarson hefur í seinni tíð orðið þekkt sem Skítamóralsjólalagið þrátt fyrir að aðrir meðlimir sveitarinnar hafi þar hvergi komið að. Þetta ár var sveitin valin hljómsveit ársins á Hlustendaverðlaunum FM957 og einnig töldu hlustendur hana vera besta á balli og þeim titli hélt hún tvö ár í röð. Áfram hélt ævintýrið og sveitin fór í hljóðver á ný. Undirbúningur að næstu plötu var hafinn. Miklar væntingar voru gerðar til sveitarinnar og strákunum var ljóst að erfitt yrði að toppa síðustu skífu og þær vinsældir sem henni fylgdu. Sami háttur var hafður á og síðast, þ.e. sveitin samdi lög í sameiningu og kallað var eftir lögum eftir aðra höfunda. Platan sem fékk nafnið Skítamórall kom síðan út á vordögum 1999. Platan varð helmingi dýrari í framleiðslu en Nákvæmlega enda var vandað mjög til verksins.

Lagið Einn með þér eftir Gunnar Ólason var fyrsta lag í spilun og náði fádæma vinsældum. Í kjölfarið fylgdi rokkslagarinn Hey, þú eftir Einar Ágúst við texta hans og Arngríms sem enn er eitt vinsælasta lag sveitarinnar. Lögin Svífum og Fljúgum áfram sem eru samstarfsverkefni Einars Ágústs og Herberts slógu í gegn og eru ennþá með mest spiluðu lögum sveitarinnar. Síðasta lagið sem fór í spilun af þessari plötu var Myndir eftir Einar Bárðarson. Platan var mun fágaðari og betur unnin en allt það efni sem sveitin hafði áður sent frá sér. Allur frágangur á umslagi og öðru var hinn smekklegasti. Herbert Viðarsson sá um hönnun á öllu prentefni og umslagi plötunnar. Platan seldist örlítið hægar en Nákvæmlega þrátt fyrir að innihalda í raun fleiri vinsæl lög. Platan hefur þó selst jafnt og þétt frá árinu 1999 og er nú næstmest selda plata sveitarinnar.

Sumarið 2000 dró til tíðinda. Einar Ágúst Víðisson og Telma Ágústsdóttir voru valinn til að syngja fyrir hönd Íslands í Evróvisjón. Keppnin fór fram í Stokkhólmi um vorið og náði Austfirðingurin ágætis árangri með Telmu. Þau enduðu í 12. sæti sem er einn besti árangur Íslands til þessa. Á sama tíma unnu strákarnir tvö ný lög eftir Einar Bárðarson, Ennþá og Með þér. Lögin voru tekin upp í Sýrlandi og Grjótnámunni með nýjum útgefanda, Skífunni. Það er skemmst frá því að segja að lögin voru jafn dýr í framleiðslu og síðasta plata sveitarinnar enda mikið lagt í þau. Útgefandinn fékk vægt taugaáfall vegna kostnaðar en áhangendur sveitarinnar kættust. Lögin komu út á plötunni Svona er sumarið 2001. Með þér var nokkuð hefðbundin sumarballaða og náði miklum vinsældum enda hafði Einar Ágúst sem var forsöngvari í laginu verið áberandi mánuðina á undan. Lagið Ennþá var nýstárleg útgáfa, þar kvað við nýjan tón í stefnu sveitarinnar en Gunnar Ólason útsetti lagið í samvinnu við Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Myndband var gert við Ennþá en Samúel Bjarki og Gunni Palli framleiddu það. Myndbandið var valið myndband ársins á Hlustendaverðlaunum FM957 þetta ár.

Um haustið var síðan tekið upp síðasta lag sveitarinnar í kafla þrjú. Lagið Æði er eftir Stuðmenn og er að finna í myndinni Með allt á hreinu þar sem hljómsveitin flytur lagið á stórdansleik í Selfossbíói. Egill syngur lagið þar sem hann hangir í netadræsum fyrir ofan svið um það bil þegar Gærurnar taka rafmagnið af og allt endar með ósköpum. Lagið var sett á plötu þar sem margir íslenskir tónlistarmenn sungu valin lög úr myndinni fyrir jólin 2000. Lagið Æði hefur aldrei komið út á plötu með Stuðmönnum en það var samið um Rúnar Júlíusson gæðablóð frá Keflavík. Eftir þetta tóku við skrýtnir tímar hjá sveitinni. Langvarandi þreyta var farin að gera vart við sig og samstarfsörðugleikar komu upp. Upp úr því ákvað hljómsveitin að hætta og þriðja kaflanum í sögu sveitarinnar lýkur.

Margt dreif á daga piltanna. Gunnar Óla fór í Evróvisjón með Two Tricky og stofnaði sveitina Plast. Herbert Viðarson spilaði lítillega með sveitinni Miðnes og Boogie Knights ásamt því að stofna eigið auglýsingafyrirtæki. Arngrímur Fannar spilaði með Boogie Knights en einbeitti sér mest að háskólanámi. Einar Ágúst söng með hinum og þessum, meðal annars eitt lag með Greifunum. Einar vann Landslagið vorið 2001, stofnaði Engla og hélt áfram farsælum útvarpsferli, nú á FM957 og reyndi einnig fyrir sér á PoppTíví. Jóhann Bachman gerði sér lítið fyrir og vippaði sér .óvart. í Írafár sem varð síðar ein vinsælasta sveit landsins.

En væntumþykja liðsmanna hvers í annars garð og í garð sameiginlegra verka dregur þá alltaf saman og eitthvað segir mér að þetta sé ekki síðasta plata sveitarinnar. Jólin 2002 ákváðu þeir loksins að koma aftur saman. Endurkoman var skipulögð og kom sveitin saman á Hlustendaverðlaunum FM957 í ár. Viðbrögðin létu á sér standa, endurkoman var glæsileg. Sveitin hefur spilað jafnt og þétt með stuttum hléum fram á haust en þessi safnplata sem þú heldur á var undirbúin í hléunum. Tvö ný lög eru á plötunni. Þau eru eftir forsöngvarana Einar Ágúst og Gunnar Ólasson. Það má segja margt um Skítamóral og alltaf eru tvær hliðar á öllum málum. Sumir elska sveitina og aðrir hata hana. En það verður aldrei tekið frá henni að stanslaus vinna og barátta frá 1989 hefur skilað henni hingað með safndisk með besta efni hennar og bjartir tímar eru fram undan. Skítamóralsmenn fylgdu í kjölfar sveita eins og Sálarinnar hans Jóns míns og Stuðmanna en um leið ruddu þeir brautina fyrir nýja kynslóð sveita af öllu landinu og sýndu það og sönnuðu fyrir sjálfum sér og þjóðinni að það er sannarlega hægt að spila fyrir land og lýð, hafa gaman af og eiga jafnframt til hnífs og skeiðar.

Tekið af tonlist.is

Ef þið hafið upplýsingar, sendið á:
hammond@simnet.is

Uppfært 19-04-07