HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 6495615
Samtals gestir: 333920
Tölur uppfærðar: 9.12.2018 18:36:15

Sálin Hans Jóns Míns

Sálin Hans Jóns Míns 1988- (fyrsta giggið 10. mars 1988)
Jón Ólafsson - Hljómborð, Söngur 1988 (25-02-63)
Rafn Ragnar Jónsson - Trommur 1988 (08-12-54 D.04-07-04)
Haraldur Þorsteinsson - Bassi 1988
Guðmundur Jónsson - Gítar, Söngur 1988-1993 / 1995- (11-10-62)
Stefán Hilmarsson - Söngur 1988-1993 / 1995-
Magnús Stefánsson - Trommur 1988-1990
Birgir Jóhann Birgisson - Hljómborð 1988-1989
Birgir Bragason - Bassi 1988
Friðrik Sturluson - Bassi 1989-1993 / 1995-
Ástvaldur Traustason - Hljómborð 1989
Jens Hansson - Saxófónn, Hljómborð 1989-1993 / 1995-
Birgir Baldursson - Trommur 1990-1993 (02-10-63)
Örvarr Atli Örvarsson - Hljómborð, Trompet 1991-1993 / 1995-1996
Tómas Jóhannsson - Trommur 1995-1998
Jóhann Óskar Hjörleifsson Klingenberg - Trommur 1998-


Jói-Frikki-Jens-Stebbi-Gummi
 
  
   1. LP Syngjandi sveittir 1988 (sumar Steinar)

 
   2. LP Hvar er draumurinn 1989 (október Steinar)

 
   3. LP Sálin Hans Jóns Míns 1991 (haust Steinar)

 
   4. LP Garg 1992 (sumar Steinar)

 
   5. LP Þessi þungu högg 1992 (vetur Steinar)

 
   6. LP Sól um nótt 1995 (sumar Spor)

 
   7. LP Gullna Hliðið 1998 (nóvember Spor)

 
   8. LP 12. ágúst ´99 1999 (18. október Spor)

 
   9. LP Annar máni 2000 (13. október Spor)

 
  10. LP Logandi ljós 2001 (10. október Spor)

 
  11. LP Vatnið ásamt Sinfó 2002 (nóvember Skífan)

 
  12. LP Undir þínum áhrifum 2005 (24. október Sena)

Það var síðla hausts árið 1987 að ungur reykvískur útvarpsmaður, Þorsteinn Joð Vilhjálmsson (síðar sjónvarpsmaður), fékk þá hugmynd að hóa saman nokkrum mönnum í hljómsveit. Ætlunin var að halda Blues Brothers skemmtun í næturklúbbnum Sigtúni við Suðurlandsbraut, hvar spila ætti tónlist úr samnefndri bíómynd, Þorsteini, félögum hans og öðrum borgurum til ánægju og yndisauka. Téður Þorsteinn setti sig af þessu tilefni í samband við tónlistarmanninn og þúsundþjalasmiðinn Jón Ólafsson, sem sjálfur hafði getið sér gott orð sem útvarpsmaður og hljómborðsleikari með hinni glaðværu sveit Bítlavinafélaginu. Þorsteinn fól Jóni það verkefni að smala saman mannskap til að koma þessu hugarfóstri sínu á legg. Jón tók vel í málið, enda hafði hann til margra ára haft yndi af soultónlist. Hann hófst þegar handa við að manna bandið og fékk til liðs við sig nokkra valinkunna spilara. Birgi Bragasyni var falið að plokka bassann, en Birgir sá gerði síðar garðinn frægann með Milljónamæringunum. Hann lagði til að á gítar yrði fenginn Guðmundur Jónsson, sem fram að því hafði m.a. spilað með hljómsveitunum Hörmung, Janus, Kikk og Tíbet Tabú. Á bak við trommusettið var síðan settur hinn skeleggi og höggvísi Pétur Grétarsson. Til að fá sem mesta vídd í túlkunina fannst Jóni tilhlýðilegt að beita fleiri en einum söngvara fyrir vagninn. Til þess voru fengnir þeir John Collins, bandarískur ökukennari og digurbarki ofan af Keflavíkurflugvelli, og efnilegur nýliði, Stefán Hilmarsson, sem sungið hafði um skeið með bifhjólahljómsveitinni Sniglabandinu. Auk þeirra sungu þeir Þorsteinn Joð og Guðjón Reynisson félagi hans nokkur lög. Skemmst er frá því að segja, að skemmtunin tókst vel, og var gerður góður rómur að leik hljómsveitarinnar, sem hlaut reyndar aldrei neitt sérstakt nafn. Skildu nú leiðir í bili.


Guðmundur og Stefán í hljóðveri við upptökur á "Hvar er draukurinn?" '89


Jens og Guðmundur '90
Snemma á nýja árinu, 1988, dró svo aftur til tíðinda. Jóni var farið að leiðast þófið; Stefán Hjörleifsson gítarleikari Bítlavina sat þá vestur í Kaliforníu og nam gítarfræði, og því ljóst að sveitin yrði óstarfhæf fram á haust. Eins og fyrr segir hafði Jón brennandi áhuga á soultónlistinni, og verkaði Blúsbræðraprójektið haustið áður eins og olía á þann eld. Til að sitja ekki auðum höndum sumarlangt, ákvað Jón því í félagi við Bítlavinafélags-félaga sína, þá Rafn Jónsson trymbil, og Harald Þorsteinsson bassaleikara, að stofna hreinræktað soulband, en þeir Rabbi og Halli höfðu einnig haft dálæti á sálartónlist um árabil. Sveitin átti að starfa fram á haust, uns fyrrnefndur Hjörleifsson snéri heim frá námi. Endurnýjaði Jón kynnin við þá Stefán Hilmarsson og Guðmund Jónsson, sem tóku vel í hugmyndina, enda báðir orðnir illa smitaðir af soul-bakteríunni. Innblástur var sóttur til bandarískra soul- og fönkbanda fyrri tíma. Skyldi sveitin m.a. skrýðast hljómsveitarbúningum að þeirra hætti og voru hannaðir sérstakir "soul-jakkar" á mannskapinn. Síðan gerðust hlutirnir hratt. Jón og Rafn höfðu úti allar klær við að útvega hinni nýstofnuðu sveit verkefni. Um þessar mundir var verið að setja á laggirnar nýjan skemmtistað í kjallara Tunglsins sáluga við Lækjargötu (þar er nú til húsa verslunin Iða, í nýrri byggingu sem byggð var eftir að Tunglið eyðilagðist í eldsvoða árið 1995). Þessi nýji staður hlaut nafnið Bíókjallarinn, enda fyrr á árum kjallari Nýja Bíós. Þar fékk hljómsveitin fyrsta djobbið; skyldi spila við opnunina og nokkrar næstu helgar. Stutt var í fyrsta giggið (10. mars '88) og því nauðsynlegt að finna nafn á bandið. Alkunna er að það er eitt af erfiðustu verkefnum hverrar hljómsveitar, og köstuðu menn hugmyndum á milli sín lengi vel. Þar sem ætlunin var að flytja eingöngu soultónlist, þótti við hæfi að nafnið vitnaði til þess. Einhver stakk upp á "Sálin", en það þótti ekki hæfa, því
hljómsveit ein sem starfaði á sjöunda áratugnum hafði borið það nafn, og því af háttvísisástæðum horfið frá þeirri hugmynd. Guðmundur stakk í framhaldi af því upp á "Sálin hans Jóns míns".


Október '89
Nafnið þótti skírskota til músíkstefnunnar og að auki hafa nokkuð þjóðlegan blæ. Einnig þótti mönnum það hæfilega hallærislegt og merking þess tvíeggja, þar sem Jón hafði ýtt boltanum af stað. Þeir Jón og Rafn stungu í framhaldinu upp á því að bandið gerði plötu til að prómótera sig. Hugmyndin var sú að á A-hliðinni yrðu frumsamin soul-skotin númer á íslensku, en á B-hlið erlendir sálarslagarar. Þetta var í árdaga geisladiskavæðingar og vínylplötur því ráðandi á markaðnum. Til að ná sem bestri soul-stemmningu var meiningin að hljóðrita B-hliðina læf. Aðstæður í Bíókjallaranum þóttu góðar til slíks og var ákveðið að drífa í því. Reyndar þótti ýmsum það óhófleg bjartsýni að ætla að æfa upp prógram í tæka tíð með það fyrir augum að þrykkja því á plast, því ekki voru nema nokkrir dagar í opnun. Hljómsveitarmeðlimir voru þó stórhuga, og ákváðu í ofanálag að hljóðrita algjörlega læf, þ.e. beint inn á tvær rásir, sem útilokaði þann möguleika að lagfæra nokkuð eftirá. Upptökurnar tókust stóráfallalaust að kalla, þó heyra mætti spila- og textafeila hér og hvar. Ekki voru menn þó að velta sér upp úr því og voru notuð 6 lög á plötuna. Samhliða þessu var farið í hljóðver með frumsamda efnið, þrjú lög, eftir þá Guðmund, Jón og Rafn, og gamlan "hund" að auki, "Kanínuna". Lagið hafði Rafn á yngri árum tekið upp úr Radio Luxembourg, samið við það ásamt félaga sínum íslenskan texta og hljóðritað síðan með Ísfirsku hljómsveitinni "Ýr" árið 1975, undir dyggri upptökustjórn Jakobs Frímanns Magnússonar. (Enn þann dag í dag er ekki vitað hver höfundur lagsins er, né frumflytjendur). Sálin hans Jóns míns fékk strax góðar undirtektir og ekki skemmdi fyrir að á svipuðum tíma var Stefán valinn til þess að syngja fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en á þeim tíma hafði þjóðin gríðarlegan áhuga á keppninni. Af því tilefni var læf útgáfu af laginu "Sókrates" bætt inn sem aukalagi á geisladiskinn, en platan hlaut nafnið "Syngjandi sveittir" og kom út í sumarbyrjun.

Magnús Stefánsson '90
Til að fylgja plötunni eftir hafði sveitin bókað sig til spilamennsku um allt land og gekk tónleikaferðin vel. Platan mæltist og vel fyrir hjá landanum og fyrsti stórsmellurinn úr herbúðum Sálarmanna var lag Guðmundar, "Á tjá og tundri".

Eftir viðburðarríkt sumar gekk haustið að vanda í garð. Þá gengu þeir Jón, Rafn og Haraldur á ný til verka með Bítlavinafélaginu, eins og til stóð í upphafi. Eftir sátu þeir Stefán og Guðmundur. Með þeim hafði tekist góður félagsskapur og sáu þeir enga ástæðu til þess að sitja með hendur í skauti, heldur ákváðu að halda áfram þar sem frá var horfið. Þeir fengu til liðs við sig nýja meðspilara og Stefán tók að bóka bandið af kappi. Í millitíðinni héldu þeir þó í hljóðver og tóku upp lögin "Þig bara þig" og "Neistann" með aðstoð fyrrum félaga sinna, Jóns, Rafns og Haralds. Soul-formerkin voru ekki lengur útgangspunktur, heldur eigin lagasmíðar. Þessi lög komu út á safnplötunni "Frostlög" síðar um haustið, en sú plata markaði tímamót hjá fleirum, því einnig háðu þar frumraun sína sveitirnar Ný dönsk og Tomobile. Nýju Sálarmeðlimirnir urðu þeir Magnús Stefánsson, gamalreyndur trymbill m.a. úr hljómsveitunum Utangarðsmönnum og Ego, Birgir Jóhann Birgisson, hljómborðsleikari og áðurnefndur Blúsbræðra-bassaleikari, Birgir Bragason. Þannig var skipanin fram eftir hausti, en er líða fór að jólum heltist bassa-Birgir úr lestinni. En Magnús vissi af bassaleikara sem hann hafði til skamms tíma leikið með í hljómsveitinni Mao.


Stefán og Friðrik '90
Sá var Friðrik Sturluson. Hann var Bíldælingur, og hafði fyrrum leikið með lítt áberandi sveitum á borð við "Suðaustan-hvassviðri" og "Hendingu". Friðrik var hljómsveitinni mikill happafengur og féll undir eins mjög vel inní hópinn. Lögin tvö á "Frostlögum" slógu rækilega í gegn og hljómsveitin varð mjög eftirsótt. Snemma árs 1989 var ákveðið að halda uppteknum hætti, og bæta við tveimur lögum á safnplötuna "Bandalög" sem út kom þá um sumarið. Það voru lögin "100.000 volt" og "Getur verið", eftir þá Guðmund og Stefán. Hljómsveitin lék víða fram eftir ári, en fljótlega eftir upptökur þessara laga taldi hljómborðs-Birgir sig ekki lengur passa inn í hópinn og sagði starfi sínu lausu. Í hans stað var fenginn bráðefnilegur píanóleikari, Ástvaldur Traustason. Hann lék með þeim fram á haust, eða uns hann þurfti frá að hverfa, í píanónám til Boston í Bandaríkjunum. (Seinna varð Ástvaldur einn af stofnendum Milljónamæringanna. Einnig vann hann síðar með Stefáni að plötu hans "Popplín" og lék á harmonikku á órafmögnuðum tónleikum Sálarinnar 12. ágúst 1999, m.a. í laginu "Okkar nótt"). Á milli þess sem sveitin spilaði um allt land, var sumarið notað til að gera fyrstu "alvöru" breiðskífuna. Ákveðnar áherslubreytingar höfðu átt sér stað. Hljómsveitin var orðin vel þétt og nokkuð rokkaðri. Um þetta leyti hættu Sálverjar að skrýðast skærum soul-jökkunum á sviði, og klæddist nú hver eftir smekk. Síðsumars þurfti að hyggja að eftirmanni Ástvalds. Þá kom inní myndina saxófónleikarinn Jens Hansson, sem hafði meðal annars leikið með Bubba Morthens í hljómsveitinni Das Kapital. Hann taldi sig einnig geta leikið á hljómborð og fannst Sálarmönnum þeir komnir í feitt með því að fá þennan "tvöfalda mann" til liðs við sig. Jens var smellt inní hljóðverið og látinn blása og leika á hljómborð í nokkrum lögum nýju breiðskífunnar. Í fyrstu fannst Guðmundi Jens ekki standa undir merkjum sem hljómborðsleikari, og ákvað því að reka hann strax eftir fyrstu sessjónina! En hann stórsá jafnharðann eftir því og endurréð Jenna sem betur fer aftur daginn eftir. Platan kom svo út seint í októbermánuði og bar nafnið "Hvar er draumurinn?". Hún fékk geysilega góðar móttökur og seldist í stóru upplagi.


Guðmundur '90

Stefán '92
Með útgáfu "Hvar er draumurinn?" hófst nýtt tímabil í sögu Sálarinnar. Lítið sem ekkert var sameiginlegt með þeirri plötu og "Syngjandi sveittir". Hljómsveitin hafði gjörbreyst á einu ári, og hafði með nýju plötunni náð að skapa sér sitt eigið "sánd". Samhliða velgengni plötunnar varð meira að gera í spilamennsku en nokkru sinni fyrr, og annaði sveitin ekki eftirspurn. Þó varla væri tími í annað en tónleikahald, gáfu menn sér þó tíma í apríl 1990 til að taka upp tvö ný lög, "Ég er á kafi" og "Ekki", sem út komu á enn einni safnplötunni ("Bandalögum 2") snemmsumars. Sumarið leið hratt og skemmtilega við botnlausa spilamennsku um borg og bý. Er líða tók að jólum ákváðu Sálarmenn þó að taka sér frí frá spilamennsku um sinn, enda orðnir langþreyttir eftir nær linnulausa keyrslu undanfarinna mánuða. Einnig var farið að gæta þreytu og áhugaleysis hjá Magnúsi trommuleikara og fór svo að hann ákvað að hætta í bandinu á þessum tímapunkti. Síðar gekk Magnús Guði á hönd eftir að rokklífið hafði leikið hann grátt, en svo greindi hann frá í merku viðtali við "Séð og heyrt" áratug síðar. Fríið var notað til að hlaða andlegu batteríin og auðvitað til að semja ný lög, því lítill tími hafði gefist til þess. Stefnt var að því að hefjast aftur handa á vori '91. Nú varð að finna nýjan trymbil sem fyrst. Nokkrir voru prófaðir, meðal annars kornungur piltur, Jóhann Hjörleifsson, sem síðar átti eftir að koma við Sálar-sögu. En fyrir valinu varð Birgir Baldursson, sem kom úr undergránd-geiranum, og hafði m.a. gert garðinn frægan með hljómsveitinni Svart/hvítur draumur. Þótti Sálarmönnum mikill fengur í honum, enda var Birgir þá almennt álitinn einn besti trommuleikari landsins. Hugur var í mönnum til meiri breytinga. Jens hafði ekki þótt sýna nein yfirburða tilþrif við hljómborðið, enda fyrst og fremst blásari af Guðs náð og fyrirtaks "band-maður". Þá kom til skjalanna ungur Akureyringur, sem mjög var mærður innan bransans fyrir fimi og snilld á svart/hvítu nótunum. Þetta var Örvarr Atli Örvarsson, sem reyndar hafði verið orðaður við stöðuna á sínum tíma, þegar Ástvaldur kom inn, en átti þá ekki heimangengt. Nú var hann tiltækur og sló til. Þannig mannaður hélt hópurinn í tónleikaferðalag um allt land vorið 1991. Eins og fyrri daginn voru tvö lög sett á safnplötu, sem að þessu sinni bar nafnið "Bandalög 4". Þetta voru lögin "Ábyggilega" og "Brostið hjarta". Hljómsveitin vann samhliða spilamennsku hörðum höndum að nýrri breiðskífu allt sumarið og fram á haust. Lögð var mikil vinna í plötugerðina og mikið æft og útsett áður en haldið var í hljóðverið. Platan kom út fyrir jólin það sama ár og bar hún einfaldlega nafn sveitarinnar "Sálin hans Jóns míns". Móttökur voru sem fyrr afbragðsgóðar og platan seldist vel.


Birgir Baldursson við upptökur á "Þessi þungu högg", '92
Haustið 1991 fór sveitin í nokkur stutt ferðalög út fyrir landsteinana. Plötunni "Hvar er draumurinn" hafði verið snúið yfir á ensku og hún gefin út í Noregi, Svíþjóð og í Benelúx löndunum undir nafninu "Where's my destiny?". Bandið hafði einnig tekið upp erlent nafn, sem vonlegt var, og kallaði sig "Beaten Bishops" þar ytra. Fróðir menn bentu reyndar á það eftir á, að nafnið væri ekki líklegt til að verða hljómsveitinni til framdráttar, því orðið "Bishop" væri gjarnan notað sem slanguryrði yfir typpi. Börðu Biskuparnir fóru m.a. til Noregs og Svíþjóðar í þeim erindagjörðum að bera út fagnaðarerindið. Ekki urðu þó ferðirnar til mikillar frægðar eða frama fyrir bandið, enda var hugurinn einatt heima. Eftir þessa túra var sett á fullt við upptökur á nýju efni. Að þessu sinni var meiningin að gefa út eigin safnplötu, hvar safna ætti saman öllum munaðarlausu safnplötulögunum á eina plötu og bæta við þremur nýjum. Saman myndaði þessi heild plötuna "GARG". Nýju lögin voru "Hjá þér", "Sódóma" og "Krókurinn", þar sem hinn gamalkunni söngvari og gleðimaður Pétur Kristjánsson léði bandinu barka sinn. Samhliða þessu var gefið út myndbandsspóla, nokkurs konar heimildarmynd, sem bar sama nafn og platan. Hún samanstóð af gömlum myndböndum, læf-myndum af hljómsveitinni við leik og störf og viðtölum við meðlimi. Hvort tveggja kom út fyrir sumarvertíðina og var vel tekið. Í millitíðinni sömdu Atli og Friðrik þó lagið "Gríma", sem síðar var notað í bíómyndina "Stuttur frakki" og kom út á samnefndri plötu.


Stefán og Pétur Kristjánsson við gerð myndbands við lagið "Krókurinn" sumarið '92
Nýju lögin á "GARG" urðu öll feikivinsæl og bar sveitin höfuð og herðar yfir aðrar sveitir þetta sumar og spilaði hvarvetna fyrir troðfullu húsi. En þrátt fyrir alla þessa velgengni hafði nokkurar óánægju gætt meðal þeirra meðlima sem ekki fengu svalað tónlistarlegri sköpunarfíkn sinni innan bandsins. Guðmundur og Stefán höfðu fram til þessa nánast setið einir að ketkötlunum þegar til þess kom að semja tónlistina, og því áttu hinir eðlilega erfitt með að kyngja, enda sjálfir lagasmiðir og ljóðagerðarmenn. Má geta þess, að í því skyni að koma laga- og textasmíðum sínum á framfæri, hafði Friðrik stofnað nýja hljómsveit. Sú var nefnd "Fríða sársauki", og hélt nokkra tónleika áður en yfir lauk. En það var semsagt sýnt, að verklagsbreytinga var þörf, og ákveðið var að gera plötu sem unnin yrði á allt annan hátt en venjulega; allir skyldu leggja saman í púkk, og lögin samin sameiginlega á æfingum. Tækifærið var notað til að gera tilraunir með aðrar áherslur í útsetningum en tíðkast höfðu hjá sveitinni fram til þessa. Síðan skyldu þeir sem áhuga höfðu skipta textagerðinni á milli sín. Afrakstur samvinnunnar varð platan "Þessi þungu högg", sem út kom fyrir jólin þetta sama ár.


Atli '95
Platan sú kom flestum í opna skjöldu, því tónlistin þótti skera sig verulega úr öðru sem á undan hafði komið frá Sálarmönnum. Platan innihélt mestmegnis hart rokk, pönkskotið á köflum, og textarnir þóttu nokkuð grófir og óheflaðir. Aðdáendum Sálarinnar var nokkuð brugðið og margir vissu ekki hvernig þeir ættu að taka þessari plötu, þó svo að margir tækju henni ágætlega. Hún seldist engu að síður nokkuð vel, þó ekki í svipuðu upplagi og fyrri Sálarplötur. Hljómsveitin hélt uppteknum hætti fram yfir áramót og spilaði víða, og sem fyrr við góða aðsókn. Það var þó yfirleitt ekki beinlínis "Þessi þungu högg" sem fólk kom til að heyra.

Kergjan sem komið hafði upp varðandi valdajafnvægið í bandinu var enn til staðar, þrátt fyrir að síðasta platan hefði verið gerð í þeirri viðleitni að ballansera málin. Ekki voru allir á eitt sáttir um hin nýju vinnubrögð og stefnuna sem málin tóku eftir þessa breytingu, þótt flestum meðlimum hafi fundist platan vel heppnuð sem slík. Að auki voru menn orðnir nokkuð pirraðir hver á öðrum, eins og gengur og gerist í svo náinni samvinnu, enda kjarninn búinn að vera saman nánast upp á hvern dag, mánuðum saman. Menn bundust því fastmælum um það að hvíla bandið um óákveðinn tíma frá og með apríl 1993. Engin ákvörðun var um það tekin hvenær bandið kæmi saman aftur. Fyrir utan pirringinn spilaði margt annað inní þessa ákvörðun, meðal annars það, að menn vildu prófa að "anda að sér öðru súrefni". Aldrei var þó send út yfirlýsing þess efnis að bandið væri hætt, heldur í löngu fríi.

Sálarorlofið notuðu menn til ýmissa verka; Atli hélt utan, og nam kvikmyndatónsmíðar í Bandaríkjunum og lék með Síðan skein sól sumrin '93 og '94. Stefán gerði fyrstu sólóplötu sína, "Líf". Einnig stofnaði hann "Pláhnetuna", og gerði með þeirri sveit tvær plötur. Guðmundur tók þátt í endurvakningu hinnar fornfrægu hljómsveitar Pelican, en fyrir þeirri sveit fór áðurnefndur Pétur Kristjánsson. Pelican gerði víðreist sumarið '93 og sendi frá sér nýja plötu, en Guðmundur samdi bróðurpart laganna. Árið 1994 lék Guðmundur meðal annars með Eyþóri Arnalds og Móeiði Júníusdóttur í hljómsveitinni "
Bong", einnig sem hann samdi tónlist fyrir sjónvarp. Fyrr á sama ári hafði Friðrik flutt til Englands til að læra til hljóðmanns, eftir að hafa leikið með Stefáni í Pláhnetunni um skeið.


Tómas Jóhannesson '95
Þetta frí varði í hartnær tvö ár, því bandið kom saman á ný vorið 1995. Má segja að kveikjan að því hafi fyrst og fremst verið utanaðkomandi pressa á sveitina um að koma saman aftur, því varla leið sú vika þessi tvö ár að ekki væri bandið beðið að koma saman og spila hér eða þar. Tóm til þess gafst þó ekki fyrr en á vormánuðum '95, því eins og áður segir voru meðlimir búnir að festa sig í margskonar verkefnum hist og her á tímabilinu. Auk pressunnar voru Sálarmenn vissulega orðnir nokkuð spenntir fyrir því að spila saman aftur og fannst nú sem tími væri til kominn, ef á annað borð ætti að fara af stað aftur. Popptíminn er jú fljótur að líða og því ekki seinna vænna, ef gera ætti það með einhverri reisn. Ein breyting var þó gerð á liðsskipan áður en haldið var af stað; trymbillinn Tómas Jóhannesson tók sæti Birgis Baldurssonar, sem þótti aldrei hafa átt fullkomlega samleið með bandinu í andlegum skilningi, þrátt fyrir ótvíræða snilld við trommusettið. Ráðist var í gerð nýrrar breiðskífu, "Sól um nótt", og hún unnin nokkuð hratt, útsetningar hafðar hæfilega einfaldar. Guðmundur sá um allar lagasmíðar og upptökustjórn, en Stefán og Friðrik skiptu með sér textagerðinni. Friðrik og Jens sáu svo um hljóðritun- og blöndun. Hljómsveitin tók upp þráðinn þar sem frá var horfið og hélt í reisu um landið það sumar sem lukkaðist vel. Sveitin lék af krafti til hausts, en þá einbeittu Guðmundur og Jens sér að dúettnum "Zebra", sem sendi frá sér breiðskífu fyrir jólin þetta ár. Sálin lék þó annað slagið alveg til janúarloka '96, en þá hélt Guðmundur af landi brott og settist ásamt fjölskyldu sinni að í Lundúnum. Á undan honum var Atli floginn vestur um haf til að ljúka þar námi sínu.


Reykjavík '96

Friðrik í Loftkastalunum 12. ágúst '99


Maí 2000

Upp frá því hefur Sálin starfað í mislöngum törnum, eftir því sem tækifæri hafa gefist. Árið 1996 tróð sveitin upp á fimm tónleikum. Sumarið '97 komu Sálverjar saman um stund og héldu í stutta tónleikaferð. Fyrir þann túr sendi sveitin frá sér þrjú ný lög, "Englar", "Undir sólinni" og "Of góð". Þau komu út á enn einni Bandalaga-plötunni, þeirri sjöundu í röðinni.

Árið 1998 fagnaði Sálin 10 ára afmæli, og fór af því tilefni í tónleikaferð, þá stærstu síðan '95. Trommuleikaravandræðum sveitarinnar ætlar seint að ljúka, því trymbillinn Tómas hvarf fyrr á árinu til náms í Bandaríkjunum. Sæti hans tók Jóhann Hjörleifsson, sá hinn sami og hafði spreytt sig í prufu sjö árum fyrr. Sem veganesti fyrir afmælistúrinn sendi sveitin um vorið frá sér lögin "Lestin er að fara" og "Orginal". Í því síðarnefnda forsöng Guðmundur í fyrsta skipti í Sálaralagi, en lagið var dúett millum hans og Stefáns. Að sumartúrnum loknum afréð Atli að segja skilið við hljómsveitina, enda sestur að í Los Angeles, þar sem hann starfar nú sem tónsmiður. Ákveðið var að skarð Atla yrði ekki fyllt og tók Jens því á sig auknar byrðar. Endapunktur afmælisársins var síðan settur með útgáfu "Gullna hliðsins", tvöfaldrar safnplötu sem innheldur úrval Sálarlaga frá 1988 til 1998. Þrjú ný lög voru hljóðrituð sérstakega fyrir afmælsiplötuna; "Stjörnur", "Allt eða ekki neitt" og "Svartir fingur".

Ekki var fyrirhugað að Sálin starfaði mikið á árinu 1999. Þó varð úr að sveitin kæmi saman fyrir verslunarmannahelgina. Á svipuðum tíma kom í ljós, að Guðmundur væri á heimleið frá London, alkominn. Í kjölfar versló-spilerís var ákveðið að blása til "órafmagnaðra" tónleika í Loftkastalanum þann 12. ágúst, fyrst menn voru á annað borð komnir af stað. Sú hugmynd hafði reyndar kviknað á styrktartónleikum sem hljómsveitin lék á í Háskólabíói milli jóla og nýárs '98. Á þeim tónleikum lék Sálin í fyrsta skipti "órafmagnað", nokkur lög sem sérstaklega voru endurútsett af því tilefni. Þetta mæltist svo vel fyrir, jafnt hjá áheyrendum sem og Sálverjum sjálfum, að afráðið var að fyrr eða síðar myndi sveitin halda sína eigin tónleika með þessum formerkjum. Það var semsagt gert í ágúst, og þeir hljóðritaðir með útgáfu í huga, ef vel til tækist. Hljóðfæraskipan á tónleikunum var að mörgu leyti önnur en menn eiga að venjast hjá Sálinni, enda notast nokkuð við hljóðfæri eins og marimba, víbrafón, sítar, tabla-trommur og harmonikku. Skemmst er frá því að segja, að tónleikarnir lukkuðust afar vel, sem og upptökur, og strax var ráðist í að koma þeim á plötu sem kom svo út 18. október. Uppistaðan er eldra efni, mikið endurútsett og sum laganna nánast óþekkjanleg. En einnig voru tvö glæný lög frumflutt á tónleikunum, "Okkar nótt", eftir Guðmund og Stefán, og "Ég er kominn", eftir þá Jens og Friðrik, en Jens hafði ekki átt lag á Sálarplötu síðan lögin "Gagntekinn" og "Ekkert breytir því" komu út árið 1991. Platan ber heitið "12. ágúst '99", og er áttunda plata Sálarinnar. Sveitin var lítið á ferðinni þennan vetur, kom þó fram nokkrum sinnum.

Tónleikaplatan féll í mjög góðan jarðveg hjá aðdáendum sveitarinnar og segja má að með henni hafi hljómsveitin gengið í endurnýjun lífdaga, því platan aflaði henni einnig fjölmargra nýrra áhangenda. Bæði nýju lögin urðu geysivinsæl, "Okkar nótt" tyllti sér hvarvetna á topp vinsældalista, og er einhver stærsti Sálar-smellurinn frá upphafi. Það var valið "lag ársins" í árlegu kjöri tónlistaráhugafólks, og í sama kjöri voru tónleikarnir útnefndir "tónlistarviðburður ársins 1999". Lagið "Orginal", sem fyrst kom út árið á undan, naut einnig fádæma vinsælda. Ung söngkona, Íris Kristinsdóttir, tók þar við dúett-hlutverki því sem Guðmundur hafði áður gegnt. "Orginal" vann m.a. það afrek að ná tvívegis á topp "Íslenska listans" með nokkurra vikna millibili. Platan seldist líka mjög vel, náði "platínu-sölu", sem þýðir sala yfir 10.000 eintök.


Jóhann á útgáfutónleikum árið 2000
Framan af árinu 2000 hafði Sálin fremur hægt um sig, en undirbjó af kappi upptökur níundu plötu sinnar. Upptökur hófust í mars, en í júlí komu út á safnplötu lögin "Sól, ég hef sögu að segja þér" og "Öll sem eitt", hvort tveggja lög sem hljóðrituð voru fyrir væntanlega breiðskífu. Í júní kom hljómsveitin í þriðja og síðasta skipti fram "órafmagnað", en það var á tónleikunum "Reykjavík Music Festival", sem haldnir voru í Laugardalshöll. Í júnílok hélt sveitin í tónleikaferð sem stóð fram á haust. Meðfram tónleikahaldi var unnið hörðum höndum við gerð nýju plötunnar, sem kom síðan út föstudaginn 13. október.

Platan ber nafnið "Annar máni", og var henni ætlað að vera fyrri helmingur nokkurskonar tvílógíu, þar sem fylgt yrði gróflega fyrirfram ákveðnum þræði, jafnt texta- og tónlistarlega. Lögin voru flest eftir Guðmund, en þó þrjú eftir Jens, sem tekið hafði nokkurn kipp eftir að hafa átt gott lag á tónleikaplötunni. Ásamt fyrrnefndum safnplötu-lögum, innihélt "Annar máni" m.a. lagið "Ekki nema von", sem náði töluverðum vinsældum. Einnig fékk lagið "Uppi í skýjunum" nokkra náð fyrir eyrum útvarpshlustenda, og var gjört við það myndband þar sem fyrirsætan Gunnar fór með aðahlutverkið, en Gunnar sá skreytir forsíðu "Annars mána". Platan féll vel í kramið hjá Sálar-aðdáendum, og náði gull-sölu.


September 2001

Gummi í Hreðavatnsskála 2001

Jenni á tónleikum m. Coldplay 22.8. 2001

Stebbi á Gauknum 18. jan. 2002
Eftir áramót tóku Sálverjar sér nokkurra vikna frí hver frá öðrum, en bjuggu sig í huganum undir gerð næstu plötu. Guðmundur hélt út í heim, sótti sér innblástur og tók til óspilltra málanna við samningu nýrra laga þegar heim var komið. Sálin blés svo aftur til tónleikasóknar á vormánuðum og gerði víðreist um sumarið eins og endranær, kom m.a. fram á tónleikum breska bandsins Coldplay 22. ágúst og frumflutti þar lögin "Flæði" og "Á nýjum stað". Þá kom Sálin, ásamt fjölda annarra sveita, fram á tónlistarhátíðinni "Eldborg 2001" um verslunarmannahelgina, en samkoma sú varð býsna söguleg. Deildu landsmenn í kjölfarið nokkuð um ágæti og tilverurétt slíkra hátíða ?ekki í fyrsta skipti, og sjálfsagt ekki það síðasta. Og ekki minnkaði umtalið þegar frumsýnd var heimildarmynd um hátíðina í mars 2002. Almennt má þó telja, að ekki hafi þar fleira farið úrskeiðis en á útihátíðum almennt í gegnum tíðina. Flestir voru þó sammála því, að sóðaskapur hafi þar verið fullmikill, og sorphirða ekki í stíl við það. Þess fyrir utan má segja, að 99% hátíðargesta hafi skemmt sér eins og til var ætlast, og að mestu í sátt við samborgara sína. Sálarmenn áttu ansi annríkt þessa helgi, því þeir léku á Akureyri föstu- laugardags- og sunnudagskvöld. Snemma á sunnudagskvöldinu voru þeir sóttir á Akureyrarflugvöll og þeim flogið til Stykkishólms. Þar tók við sannkölluð manndrápskeyrsla yfir á Eldborg, og héldu Sálarmenn og kvikmydagerðarmenn sem í bílnum voru, að þetta yrði þeirra síðasta, svo svakalegur var aksturinn. Tíminn var enda naumur, því eftir hálftíma "set" á Eldborg þurfti að bruna með sama hraða til baka, uppí flugvél og aftur til Akureyrar. Það var því nokkuð taugatrekkt band sem sté á sviðið í Sjallanum um hálf-tvö-leytið.

Til að fylgja eftir sumartónleikaförinni voru eins og oft áður gefin út tvö ný lög, "Hinn eini sanni" og "Ég var þar". Fyrrnefnda lagið fékk mikla spilun, og ekki síst vakti myndband við það lukku, en í því var nokkrum áratugum bætt á Sálarmenn með farða. Bæði lögin voru auðvitað hluti nýju plötunnar, sem unnin var meðfram tónleikahaldinu. Allt kunnugleg vinnubrögð. En í september kvað við nýjan tón í útgáfumálum Sálarinnar, því þá voru Loftkastala-tónleikarnir gefnir út á DVD-diski. Þetta var fyrsta alíslenska DVD-útgáfan og voru tónleikarnir endurhljóðblandaðir af þessu tilefni. en Diskurinn inniheldur einnig þrjú lög sem hljóð- og myndrituð voru á Reykjavík Music Festival, auk viðtala við marga þá sem komu við sögu á tónleikunum í Loftkastalanum.

Þann 10. 10. 2001 kom svo út tíunda Sálarplatan, "Logandi ljós". Segja má að hún sé tvíburaplata "Annars mána", en í lögum platnanna má finna ákveðinn samhljóm og undirliggjandi þráð, jafnvel söguþráð, ef vel er gáð. "Logandi ljós" stendur þó fyllilega sem sjálfstætt verk, óháð tíma, rúmi og fyrri útgáfum. Platan hlaut góðar viðtökur áhangenda og náði gull-sölu, og vel það. Meira að segja gagnrýnendur voru ánægðir með gripinn; töldu þetta bestu plötu sem Sálin hefur sent frá sér til þessa. Nokkur laga plötunnar náðu vinsældum, og auk lagsins "Hinn eini sanni", ber að nefna lögin "Syndir" og "Á nýjum stað", en það síðastnefnda var valið "Lag ársins" þegar Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir árið 2001 voru afhent. Samtals hlaut sveitin tilnefningu í fjórum flokkum á ÍTV. Stefán var þar útnefndur "Söngvari ársins", og skömmu síðar hlaut hann sömu nafnbót á árlegri hlustendahátíð útvarpsstöðvarinnar FM-957. Á þeirri hátíð var Sálin tilnefnd í flestum flokkum, en fékk tvenn verðlaun; vefsíða sveitarinnar var kjörin "Heimasíða ársins", annað arið í röð, og myndbandið við "Á nýjum stað" var kjörið "Myndband ársins", en í þeim flokki var myndbandið við "Hinn eini sanni" einnig tilnefnt. Þá ber þess að geta, að myndbandið "Á nýjum stað" hlaut Eddu-verðlaunin skömmu síðar.

Það er því óhætt að segja, að árið 2001 hafi verið Sálverjum eftirminnilegt og gjöfult. Sveitin spilaði lítið eftir áramót, og þann 15. febrúar kom hún í síðasta skipti fram á tónleikum í bili, ásamt hljómsveitunum Ný dönsk, Ber og Sign. Eftir það ákváðu menn að taka sér frí frá tónleikahaldi og hver frá öðrum um óákveðinn tíma. Reyndar lék sveitin lagið "Flæði" á fyrrnefndri verðlaunahátíð FM-957, sem haldin var 27. febrúar, en sú uppákoma var nokkuð sérstök, ef ekki einstök.
Stefán var þá staddur erlendis, og því brugðið á það ráð að samtvinna "flutning" hans ?sem fyrirfram hafði verið tekinn upp á band? og flutning annarra Sálverja, sem voru á staðnum og léku undir. Mæltist þetta ágætlega fyrir, en ólíklegt er þó að sveitin endurtaki þennan leik í bráð. Til gamans má geta, að þetta er í annað skipti sem Sálin leikur opinberlega, án þess að Stefán sé á staðnum. Fyrr gerðist það 17. júní árið 1990, en þá veiktist Stefán á ögurstundu, er tónleikar stóðu fyrir dyrum á gamla Gauknum. Tíminn var of naumur til að hlaupa af hólmi, og til að bregðast ekki áhangendum sínum algerlega, vildu Sálverjar sýna viðleitni og leika í það minnsta nokkur lög, þó ekki væri nema instrumental. Er á staðinn var komið, barst sveitinni þó óvænt aðstoð frá tónleikagesti, því uppá sviðið sveiflaði sér ungur og alls óþekktur piltur og söng með sveitinni allmörg lög, þannig að nokkuð rættist úr gigginu. Þessi óvænti gestur hét Geir Ólafsson ?oft kallaður Geiri Smart? og gerði hann löngu síðar garðinn frægan sem tenór-krúnerinn "Ice Blue" með hljómsveit sinni Furstunum.

Nánasta framtíð Sálarinnar er óráðin, rétt eins og svo oft áður. Ekki er fyrirhugað að hún starfi mikið á árinu 2002, a.m.k. ekki framan af ári...

Gullnaliðið skráði


Uppfært 19-04-07