HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 510
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 6497362
Samtals gestir: 334154
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 14:22:35

Unnar Rafn Jóhannsson

VINUR AÐ DEYJA
Að kveldi einn ég stóð
á eyðilegri ströndu.
Á fjallatinda fjúki hlóð,
í fjarska dundu veðurhljóð,
sem veikur maður varpi þungan öndu.

Þá hinsta skíma flúði fjær
af foldu vegu langa,
en fjúk og stormur færðist nær,
og frostið sínar bitru klær
mér lagði fast um fætur, hönd og vanga.

Og eftir fáein andartog
við ógnir storms og fanna
þar risu hrannir hátt á vog.
Mér heyrðist brimsins voðasog
sem djúpar stunur dauðasærðra manna.

Þá fannst mér sjávaraldan ein
sig öðrum hærra teygja.
Hún beygði fald við fjörustein,
með feigðar-köldum rómi hrein:
"Ó veistu, að þinn vinur er að deyja?"

Þá fór mér hrollur hjarta að,
og harm ég fann mig beygja.
Það orð á þessum eyðistað
í eyrum mínum stöðugt kvað:
"Ó, veistu, að þinn vinur er að deyja?"
Páll J. Árdal

Unnar Rafn Jóhannsson 20.apríl 1974 - 13.mars 2007
Unni eins og hann var yfirleitt kallaður í vinahóp mínum (stundum Unnsteinn eða Bakkus) var með eindæmum frábær náungi sagði nú ekki mikið en þegar til þess kom hafði hann kannski skvett í sig flösku á góðri stundu í vinahóp sem ég hef verið í í mörg mörg herrans ár. Stundum fengum við okkur í glas tveir saman þegar enginn annar var til þess en yfirleitt var Beggi ekki langt undan því Unni var hans allra besti vinur og því missirinn mikill fyrir Begga. Ég mun minnast hans alla tíð með hugsuði og miklum söknuði. Gummi

Eiríkur Þórðarson, t.v. og Unnar Rafn Jóhannsson, t.h.
Mennirnir tveir sem fórust 13.mars 2007 er Björg Hauks, 10 tonna trilla hvolfdi við mynni Ísafjarðardjúps hétu Eiríkur Þórðarson og Unnar Rafn Jóhannsson. Eiríkur var 47 ára gamall. Hann lætur eftir sig sambýliskonu, eina dóttur og fimm fóstursyni. Unnar Rafn var 32 ára. Hann var ókvæntur og barnlaus. Báðir mennirnir áttu heima á Ísafirði.

Unnar Rafn Jóhannsson 
Unnar Rafn Jóhannsson fæddist á Ísafirði 20.apríl 1974. Hann lést í sjóslysi 13.mars 2007 og var útför hans gerð frá Ísafjarðarkirkju 24.mars 2007


Það kom verulega ílla við okkur bræðurna þegar við fréttum af hinu hörmulega sjóslysi þegar Björg ÍS fórst en með henni fórust þeir Unnar Rafn Jóhannsson og Eiríkur Þórðarsson. Eiríkur stundaði sjóinn héðan frá Ísafirði og Tálknafirði og stytti það mörg stímin þegar hann hringdi og spjallaði um aflabrögð og heima og geima. Eiríkur var spjallsamur maður sem lífgaði upp á bryggjulífið og mun hans verða sárt saknað þar.
Unnari Rafni kynntumst við snemma á ævinni þar sem við ólumst upp á Ísafirði. Leiðir lágu síðan saman á fullorðinsárum þegar Unnar fór að beita fyrir útgerð okkar og stundaði hann lengi störf hjá útgerðinni bæði við beitningu og sjómennsku, bæði á línu og grásleppuveiðum.
Út á við virkaði Unni sem hin þögla týpa, en í góðra vina hópi var hann yfirleitt hress og gamansamur og samstarfsmönnum hans líkaði vel við hann. Unni var rólegur í fasi, en var drjúgur og afkastamikill til vinnu og þegar kom að tölvumálunum var hann á heimavelli og var þá gott að eiga Unna að vini. Sá hann um allar lagfæringar á bátstölvunni og tölvum okkar bræðra og lék það í höndunum á honum enda var hann mikill tölvuáhugamaður.
Unni var frekar heimakær en þó ferðaðist hann með okkur bræðrum í mörg ár bæði til Venesúela og Taílands, þar kunni hann vel við sig og var staðráðinn í að fara aftur til Taílands því hann heillaðist af landi og þjóð.
Á þessum ferðalögum kom vel í ljós hversu fínn náungi var á ferð og var yfirleitt þægileg stemning í kringum hann og duttu oftar en ekki ansi spaugilegar athugasemdir upp úr honum.
Við kveðjum góðan vin sem verður sárt saknað. Vottum við fjölskyldum Unnars og Eiríks okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.
Gunnlaugur Á. Finnbogason,
Jónas Finnbogason,
Grímur Finnbogason.