HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 600
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 6495848
Samtals gestir: 333963
Tölur uppfærðar: 10.12.2018 05:28:00

1983

Ferðasagan mín til Leirufjarðar þegar ég var 12 ára gamall 1983

Sunnudagurinn 10.júlí 1983 Dagur 1.
Vakna ég heima á Ísafirði klukkan hálf 7, fékk mér að drekka og eftir það fórum við út á bryggju og lögðum svo af stað til Leirufjarðar, það voru ég. amma, afi, Stína, Ragnar og Rannveig sem voru að fara. Ferðin tók um þrjá klukkutíma og fórum við strax að tína upp úr bátnum það sem Stína og Ragnar áttu fyrir utan Hvamm, sigldum svo að hjólhýsinu og fórum að landi en Valdís, Stonni, Hugrún, Gaukur, Valdimar, Gunnar, Steinþór og Skúli voru komin. Síðan fengum við okkur að borða. Eftir matinn komu gestir og fengu kaffi að gömlum sið. En eftir stutta stund fóru þau. Fóru afi, Valdi og Steinþór út í Hvamm. Ég var heima að leika mér og var að hlusta á kassettutækið mitt. Fór svo út í Hvamm að leika við Rannveigu, en síðan fengum við okkur að drekka. Þegar heim var komið var verið að hætta að smíða í sumarbústaðinum og Valdís og Stonni voru að pakka saman verkfærunum þetta skiptið. Svo komu þau í kaffisopa. Svo fóru þau Gunnar, Steinþór, Hugrún, Valdimar og Gaukur heim á Ísafjörð og gáfu svo mikið í á bátnum Straum að þau voru komin út að Höfðaströnd eftir fáeinar mínútur. Stonni fór út í Friðrik að kalla á Straum. Ég fór að hlusta á kassettur en þá þurfti það óhapp að gerast að það slitnaði kassettubandið í einni kassettunni en Valdís sagði að Valdimar gæti gert við kassettuna. Svo kom Stonni. Svo var farið að borða. Eftir matinn fór afi að færa Valbjörn ÍS 17 að bryggjunni svo að við gætum farið að tína úr bátnum. Svo fóru Valdís og Stonni heim á Ísafjörð. Eftir það fórum við að taka saman dótið og fórum með það að hjólhýsinu, en eftir stutta stund fórum við með slatta af farangrinum á sinn stað. Ég fór svo að leggja kapal og afi sagðist hafa séð mann koma en í ljós kom að þetta var bara KIND!!!. Síðan hafði ég og afi það bara rólegt. Fór afi svo út en ég var eftir inni. Svo fór ég út að hjálpa afa og ömmu með dótið. Fórum svo inn í hjólhýsið. Amma fór að hafa allt tilbúið fyrir morgundaginn. Afi að hlusta á útvarpið og ég hafði það rólegt. Svo fengum við okkur að drekka smávegis, svo fórum við að hafa okkur til í háttinn. GÓÐA NÓTT.

Mánudagurinn 11.júlí 1983 Dagur 2.
Vakna ég klukkan 9 og afi líka, fengum okkur að drekka. Lagði ég mig aftur og vaknaði hálf 12. Amma var þá að fara framúr rúminu, svo tókum við saman rúmfötin. Afi og ég ætluðum að fara að líta á netin en þá var ekki komin nógu mikil fjara svo að við fórum bara aftur til baka heim að borða. Eftir matinn gátum við gáð í netin. Tveir silungar í fyrsta netinu en ekkert í hinu netinu svo við fórum heim að hjólhýsinu með fenginn. Fór ég að skipta um föt. Kom svo Rannveig. Afi fór svo út eftir í Hvamm með talstöð. Ég og Rannveig vorum að leika okkur. Svo fengum við okkur að drekka. Svo kom afi og fór að tala í talstöðina út í Hvamm. Eftir nokkra stund fóru ég, amma og Rannveig út eftir í Hvamm til Stínu og Ragnars. Þegar heim var komið fór amma að elda matinn. Borðuðum við svo matinn. Eftir matinn talaði afi við Gústa út í Hvamm. Lagði ég mig. Fór afi svo með bátinn frá bryggjunni. Kom afi svo í land á árabátnum og ég og amma fórum að hjálpa honum við að draga bátinn upp í fjöru. Fórum svo inn og höfðum það rólegt. Hlustuðum á útvarpið og töluðum saman. Fórum svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Þriðjudagurinn 12.júlí 1983 Dagur 3.
Vakna ég klukkan hálf 10 og fer framúr og tek saman sængurfötin. Fékk mér svo að drekka. Fór ég svo að skoða bók. Hjálpaði svo afa og ömmu. Eftir matinn fór ég í fótbolta við sjálfan mig. Svo kom Rannveig og fórum við að leika okkur. Eftir það gáðum við í netin en ekkert var í þeim. Seinna um daginn komu þau Stína, Ragnar, Silla og Gústi og töluðu þau svo saman við afa og ömmu. Svo fór bara Rannveig út eftir í Hvamm. En eftir stutta stund fóru svo hin út eftir í Hvamm. Höfðum við þetta þá rólegt. Töluðum saman og fleira. Síðan skrapp ég út eftir í Hvamm. Ég og Rannveig fórum að spila. Fékk ég svo að borða hjá þeim. Síðan fóru ég og Rannveig út að leika. Svo fór ég heim og sagði afa og ömmu allt af létta. Svo var farið að hafa sig til í háttinn. GÓÐA NÓTT.

Miðvikudagurinn 13.júlí 1983 Dagur 4.
Vakna ég 20 mínútur í 9. Fékk mér að drekka, stökk svo aftur upp í rúmið og fór að hlusta á kassettutækið. Sofnaði svo. Vaknaði svo klukkan 12 fór framúr klæddi mig og fór að borða. Eftir matinn hvíldi ég mig svolítið. Fór svo út að leika mér. Svo fór ég inn. Afi kom svo stuttu seinna og höfðum við það rólegt þar til við fengum okkur að drekka. Svo gáði ég í netin og í öðru netinu var einn silungur sem slapp en svo fór ég og amma að gá í hitt netið og þar var einn silungur og svo fórum við heim. Afi tók silunginn og slægði hann. Svo fórum við inn og höfðum það rólegt. Amma og afi lögðu sig en ég hlustaði á kassettutækið mitt. Svo fórum við að hrista þarann úr netinu og afi fór svo inn en ég og amma fórum í hitt netið. Þegar búið var að hrista þarann úr netunum fór ég heim en amma fór að tína skeljar. Svo kom amma en afi var að hlusta á talstöðina og ég á kassettutækið mitt og ég notaði heyrnartól til að trufla ekki afa við að hlusta á talstöðina. Amma fór svo að hafa til matinn. Eftir matinn fórum við út eftir í Hvamm og ég og Rannveig fórum að spila. Fengum svo að drekka og ég var allveg pakksaddur. Þegar við komum heim í hjólhýsið sá afi bát og voru það Lóa, Mundi og börn. Ég, Steingrímur og Kristín fengum okkur að drekka fórum svo út að leika okkur og þá voru Lóa og Mundi að slá upp tjaldi og komu síðan inn í hjólhýsið og voru að tala saman við afa og ömmu. Síðan fórum við að sofa. GÓÐA NÓTT.

Fimmtudagurinn 14.júlí 1983 Dagur 5.
Vakna ég og ligg í rúminu svo kom Steingrímur. Ég fór framúr og tók saman sængurfötin og fékk mér svo að drekka. Síðan kom Steingrímur aftur og Kristín, en pabbi þeirra var inn í fortjaldinu að laga kaffi. Síðan fórum við út að leika okkur. Eftir það fórum við ég og Steingrímur á gúmmíbátinn og borðuðum svo eftir það. Eftir matinn vorum við að leika okkur ég og Steingrímur og fórum á gúmmíbátinn. Fórum rúnt á árabátnum með einum fullorðnum og svoleiðis. Um kvöldið eftir matinn fórum við ég og Steingrímur út í Hvamm. Þegar heim var komið var Stonni að tína úr bátnum í land. Eftir það fóru kallarnir í molasopa. Síðan fór hann Stonni heim til Ísafjarðar. Við ég og Steingrímur fórum á gúmmíbátinn svo upp í sumarbústað þeirra Valdísar og Stonna. Svo fórum við að sofa. GÓÐA NÓTT.

Föstudagurinn 15.júlí 1983 Dagur 6.
Vakna ég klukkan 10, svo kom Steingrímur en fór svo strax upp í sumarbústaðinn og stuttu seinna fór ég upp í sumarbústaðinn og fékk mér serios, eftir það fórum við á gúmmíbatinn og sigldi ég að bryggjunni og var á henni en Steingrímur reyndi að komast í land svo ég væri einn á bryggjunni en ég komst samt í land, voða gaman. Steingrímur fór svo að skipta um föt. Svo kom amma utan af Hvammi og fór að huga að matnum. Eftir matinn voru ég, Kristín og Steingrímur að leika okkur og svo var kveikt í rusli. Síðan fór Steingrímur á gúmmíbátinn en ég var inni í hjólhýsinu. Steingrímur kom svo inn. Svo var drukkið. Eftir það fórum við í krokkett og fórum við svo inn að spila, svo kom amma og afi. Ég og Steingrímur fórum svo að tína marflær, svo komu afi og Mundi að gera við bryggjuna, svo kom Kristín með marhnút sem hafði komið í netið og setti ég og Steingrímur hann í stóra fötu með söltum sjó í og rusli. Svo kom matartíminn. Eftir matinn vorum við út í fjöru en fórum svo fljótlega upp í sumarbústaðinn. Svo kom Stonni á Friðriki en það var svo hvasst að Stonni gat ekki lagt bátnum og fór út að Höfðaströnd þar til að lægði. Svo fóru Hugrún ekki Gaukur hann var með Stonna, Valdís, amma, afi, ég, Mundi, Lóa, Kristín og Steingrímur að hátta. GÓÐA NÓTT.

Laugardagurinn 16.júlí 1983 Dagur 7.
Vakna ég klukkan 10 og Stonni var kominn. Við fengum okkur að drekka ég og Steingrímur. Eftir matinn var ég að hlusta á kassettutækið mitt og lita með Kristínu, eftir það fórum við ég og Steingrímur út að leika, svo fengum við okkur að drekka. Síðan fórum við ég og Steingrímur upp í bústaðinn. Gáðum svo í netin og fór ég svo aftur upp í bústaðinn. Svo var haldin heljarmikil kjúklinaveisla og borðuðu allir sig pakksadda. Svo höfðu allir það bara rólegt og voru allir að tala saman og svoleiðis og fór ég svo inn í hjólhýsi að búa um mig en fór ekki strax að sofa. Stuttu seinna skreið ég upp í rúm og fór að sofa. GÓÐA NÓTT.

Sunnudagurinn 17.júlí 1983 Dagur 8.
Vakna ég klukkan 10 og fer framúr. Eftir það bý ég um rúmið, fékk ég mér svo að drekka. Eftir það fór ég út. Ég og Steingrímur fórum að leika okkur. Eftir matinn ætluðu afi og Mundi að sækja fólk enn þá ætlaði Kristbjörn að koma með. Stonni, Valdís og Hugrún voru farin út í Hvamm. Svo var ég og Steingrímur að leika okkur. Síðan komu Stonni, Valdís, Hugrún og Rannveig og ég og Rannveig fórum að leika okkur. Svo fóru Lóa, Mundi, Steingrímur og Kristín út í Hvamm. Ég og Rannveig vorum enn að leika okkur. Síðan komu Lóa, Mundi, Steingrímur og Kristín og fóru amma og Lóa að huga að matnum. Síðan kom Kristbjörn með Stínu, Bibba, Mögnu og Huldu Björk og ég og Hulda Björk fórum að tala saman inn í hjólhýsinu. Svo fórum við að borða. Eftir matinn vorum við í tví-tví og eftir það fórum við ég og Hulda Björk að búa um okkur og svo fórum við að sofa. GÓÐA NÓTT.

Mánudagurinn 18.júlí 1983 Dagur 9.
Vaknaði ég klukkan hálf 10 fer framúr og bý um rúmið og fékk mér að drekka. Síðan fór ég út að veiða. Eftir matinn fóru ég, Hulda Björk, Kristín og Steingrímur út að leika okkur og fórum við í tví-tví og þar næst í feluleik. Svo fórum við inn að leika okkur. svo kom kaffitíminn og aftur fórum við að leika okkur. Svo kom bátur og gestirnir fengu kaffisopa og eftir kvöldmatinn fóru þau og Bibbi, Stína og Magna fóru með þeim inn í Furufjörð. Fór svo Mundi með Stonna, Hugrúnu og Gauk út í Friðrik og ég, Kristín, Steingrímur og Hulda Björk fengu að fara með. Eftir þetta fór Mundi að gera skýli við vaskinn og gáðum svo í netin. Lax í Valdísar neti en koli í Bibba neti sem Kristín mátti eiga. Fórum við svo ég og Hulda Björk inn í hjólhýsið að hlýja okkur. Fórum svo upp í bústaðinn. Svo fór ég að búa um rúmið mitt og Huldu Bjarkar en hitt fólkið var enn upp í sumarbústaðinum. En allt í einu hleypur afi út og sér að pramminn sé farinn áleiðis að Valbirni og kom þá Mundi á sprettinum og tók gúmmíbátinn til að reyna að ná prammanum og það tókst. Svo fórum við bara að leggja net og um 3 leitið fórum við að sofa. GÓÐA NÓTT.

Þriðjudagurinn 19.júlí Dagur 10.
Vaknaði ég klukkan 10. Steingrímur og Valdís voru þá löngu vöknuð. Um hádegið komu Stína, Bibbi, Magna, Gunnar og Sigga frá Furufirði en stuttu seinna fóru Gunnar og Sigga. Eftir það fórum við ég, Mundi, Hulda Björk, Kristín, Lóa, Valdís og Steingrímur út að Flæðareyri og stoppuðum þar smástund. Þegar heim var komið fengum við okkur að drekka, svo fórum við krakkarnir í tví-tví. Eftir matinn vorum við ég, Hulda Björk, Steingrímur og Kristín að leika okkur og svo fórum við upp í hús. Svo var gáð í netin en ekkert var í þeim nema Bibba neti þar var lax og svo fór ég inn og fékk mér að drekka. Eftir allt þetta fórum við að sofa Hulda Björk, Gummi, amma og afi. GÓÐA NÓTT.

Miðvikudagurinn 20.júlí 1983 Dagur 11.
Vakna ég klukkan 10 og fer framúr og bý um rúmið og fékk mér svo að drekka. Svo fór ég út og var þá Bibbi að koma með lax. Svo kom matur. Eftir matinn var glaða sólskin og fórum við ég, Hulda Björk, Steingrímur og Kristín í stuttbuxur. Þegar sólin var farin þá klæddum við okkur og fórum að veiða og Hulda Björk fór upp í hús. Þegar ég hætti að veiða og fór inn í hjólhýsið fengum við okkur að drekka ég, Hulda Björk, Kristín og Steingrímur. Eftir það fóru Hulda Björk, Kristín og Steingrímur inn í tjald foreldra Steingríms og Kristínar. Ég var inn í hjólhýsinu og hafði það virkilega huggulegt og amma lagði sig. Ég var að hlusta á kassettutækið mitt enn þá birtist Steingrímur. Fór svo út að leika við Steingrím. Svo fór ég að smíða báta fyrir mig og Steingrím. Lékum okkur svo með þá. Eftir matinn héldum við áfram að leika okkur með bátana. Síðan fórum við ég og Steingrímur inn í hjólhýsið og svo kom Bibbi. Afi og Bibbi fóru að tala saman og Steingrímur að lesa bók. Svo fórum við ég og Steingrímur upp í sumarbústaðinn til Valdísar og Lóu. Fór svo Steingrímur en ég fór þá bara inn í hjólhýsið og fór að lesa bók. Svo bjó ég um mig og fékk mér að drekka en þegar við sem vorum í hjólhýsinu sáum Valdísi og Lóu koma flýtti ég mér upp í rúm. Stuttu seinna fóru allir að sofa. GÓÐA NÓTT.

Fimmtudagurinn 21.júlí 1983 Dagur 12.
Vakna ég klukkan 10 og fer framúr og tek saman rúmfötin og svo segir afi að það sé hérna annar bátur og tvö tjöld. Í einu tjaldinu var Hjörtur og Guðrún frá Fagrahvammi á Ísafirði en í hinu tjaldinu var Hjörtur sem á bátinn Arnar.
Svo var ég inni í hjólhýsinu en fór stuttu seinna út og fór svo bara fljótlega inn aftur. Eftir nokkra stund var ég, Hulda Björk, Kristín og Steingrímur í tví-tví. Svo fór Mundi að líta á bryggjuna. Síðan var borinn fram matinn. Eftir matinn fór Mundi pabbi hans Steingríms að smíða betri báta handa mér og Steingrími en hann var búinn að gera bát fyrir Huldu Björk, Kristínu dóttur sinni og Halldóri Inga sem kom um morguninn með bátnum Arnari. Svo fórum við að leika okkur með bátanna. Svo kom kaffitími og fór ég svo aftur út að leika mér með bátinn. Við fórum svo upp á fjall og gerðum hesta úr steinum. Síðan kom kvöldmatartíminn og eftir matinn fóru ég, Steingrímur og Halldór aftur upp á fjall að leika okkur að þessum hestum sem við höfðum gert úr grjóti. Svo fórum við að leika okkur með bátanna. Ég fór svo að skipta um föt. Svo fór ég að sofa. GÓÐA NÓTT.

Föstudagurinn 22.júlí 1983 Dagur 13.
Vakna ég klukkan 10 og fer framúr og bý um rúmið og þá vaknaði Hulda Björk. Afi og Mundi voru farnir heim á Ísafjörð. Svo fór ég út og þá var Steingrímur að skríða úr bóli sínu. Svo fórum við ég og Steingrímur að leika okkur, þá vaknaði Halldór. Svo kom matartími. Svo fórum við að leika okkur. Síðan kom kaffitími og eftir hann fórum við ég, Steingrímur og Halldór að spila en eftir það fórum við á hestana okkar. Eftir kvöldmatinn komu afi og Mundi frá Ísafirði. svo fórum við ég, Hulda Björk, Steingrímur, Halldór og Kristín að leika okkur. Fór ég svo inn í hjólhýsið og fékk kvöldkaffi. Svo fór ég út og jarðaði lítinn andarunga sem hafði flækst í einu netinu. Fór svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Laugardagurinn 23.júlí 1983 dagur 14.
Vakna ég klukkan 10 fer framúr og líka Hulda Björk. Ég fékk mér svo að drekka. Svo fórum við ég og Steingrímur að leika okkur, gáðum í netin enn ekkert var í þeim. Þegar ég var svo kominn heim fékk ég mér að borða og þvoði mér svo um hárið. Stonni var á leiðinni til Leirufjarðar með Munda, Stulla, Huldu Guðborgu, Jón Friðgeir, Gunnar og Inga Sturla, fór ég svo út því þau voru að koma á bátnum Friðrik. Svo fórum við ég. Hulda Guðborg, Sóley, Jón Friðgeir, Hulda Björk, Gunnar og Kristín að leika okkur. Svo kom kaffitími og fór svo öll hrúgan aftur að leika sér. Eftri kvöldmatartímann var ég og Gunnar að leika okkur. Síðan kom Finnbogi á nafnlausa bátnum og fórum við á árabátnum hans afa með Munda út í þennan nafnlausa bát og fórum á smá siglingu á honum en þá varð hann bensínlaus og fór þá Mundi með mig, Sóleyju, Huldu Guðborgu, Jón Friðgeir, Ingibjörgu og Elísabetu út í fjöru og þurftum við að labba smá spöl heim að hjólhýsinu. Svo fór ég að veiða og svo kom kvöldkaffi og fékk ég að drekka. Svo fór ég auðvitað aftur að veiða. Eftir þetta fór ég inn í hjólhýsið og fór svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Sunnudagurinn 24.júlí 1983 Dagur 15.
Ég vaknaði klukkan 11 og stökk framúr og fékk mér að drekka og fór svo út. Síðan kom hádegismatur og eftir matinn fórum við ég, Hulda Björk, Guðrún, Hjörtur eldri, Halldór og Hjörtur yngri inn í Kjós og ferðin gékk alveg ljómandi vel. Svo skruppum við í kaffi til Sólbergs og svo lá leiðin heim í Leirufjörð. Ég fékk að borða um borð í nafnlausa bátnum hans Finnboga. Svo var farið pakka saman dóti því að Bibbi, Stína, Magna, Hulda Björk, Guðrún, Hjörtur eldri, Halldór, Gugga, Hjörtur yngri, Finnbogi, Dísa og börn þeirra voru að fara heim til Ísafjarðar. Þegar þau voru farin var kveikt í rusli. Fékk svo að drekka og fórum svo ég, Sóley og Jón Friðgeir að tala saman. Svo fórum við að sofa. GÓÐA NÓTT.

Mánudagurinn 25.júlí 1983 Dagur 16.
Ég vaknaði klukkan 11 og fór framúr. Sóley svaf fyrir ofan mig í hjólhýsinu, hún var vöknuð. Svo fékk ég mér að drekka. Ég og Sóley fórum að hlusta á kassettur og svo kom matartími. Eftri matinn fór ég út að leika mér það var eitthvað svo margt sem ég gerði fór einn túr á árabátnum hans afa með afa. Rannveig kom svo utan úr Hvammi og þá fórum við ég, Sóley og Rannveig að spila. Svo komu Stína, Ragnar, Einar og Silla utan úr Hvammi. Kaffitíminn var svo á næsta leiti og eftir þennan kaffitíma fóru þau öll. Ég, Sóley og Jón Friðgeir fórum að leika okkur. Svo kom kvöldmatartíminn. Fórum svo á árabátinn hans afa og fórum svo eftir það ég, Sóley og Jón Friðgeir að spila. Svo var farið að hafa sig til í háttinn. GÓÐA NÓTT.

Þriðjudagurinn 26.júlí 1983 Dagur 17.
Vaknaði ég klukkan 9 fer framúr og fæ mér að drekka. Svo fórum við ég, Sóley, Gunnar og Steingrímur að spila tölvuspil. Síðan kom matartíminn. Eftir matartímann fórum við ég, Sóley, Jón Friðgeir, Gunnar, Steingrímur og Viðar í fótbolta, stuttu seinna fóru svo Stonni, Valdi, Guðrún og Viðar heim á Ísafjörð. Við fórum svo inn því það kom svo svakaleg rigning. Svo fóru Lóa, Mundi, Steingrímur, Kristín, ég, Sóley, Hulda Guðborg, Munda, Stulli, Jón Friðgeir, Gunnar og Ingi Sturla út í Hvamm. Þegar heim var komið kom kvöldmatartíminn. Svo fórum við ég, Jón Friðgeir, Gunnar, Steingrímur og Kristín að leika okkur úti. Svo fórum við inn í kvöldkaffið. Fórum svo út ég og Jón Friðgeir. Fórum svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Miðvikudagurinn 27.júlí 1983 Dagur 18.
Ég vaknaði fór framúr, bjó um mig og fékk mér að drekka en allir aðrir voru komnir á fætur. Svo fórum við ég og Gunnar að spila. Síðan kom hádegismatartíminn. Fórum svo ég, Sóley, Hulda Guðborg, Jón Friðgeir, Gunnar, Kristín, Steingrímur, Ingi Sturla, Mundi, Munda, Stulli, Lóa og amma en ekki afi hann var bara heima inni í hjólhýsinu, að jökli en það var svo hvasst að við urðum að snúa við eftir aðeins hálfa leið. Þegar heim var komið var komin matartími. Svo kom Rannveig til að leika við Sóley. Svo fórum við ég og Jón Friðgeir í byggingarleik að búa til borg úr sandi. Svo fór Rannveig. Við vorum að búa til sandborg og fórum svo inn í hjólhýsið að leika okkur og tala saman. Svo fóru Hulda Guðborg, Stulli og Mundi að gá í netin og þar var einn lax. Svo var farið að hafa sig til í háttinn. GÓÐA NÓTT.

Fimmtudagurinn 28.júlí 1983 Dagur 19.
Vakna ég klukkan 10 og fer framúr og líka Sóley, amma og afi. Svo vaknaði afgangurinn af fólkinu. Svo fórum við ég, Steingrímur, Jón Friðgeir og Gunnar að leika okkur. Síðan var brennt rusli og eftir það var komin matartími og eftir hann fóru allir nema amma inn að Hesteyri. Síðan þegar heim var komið var kominn kvöldmatartími. Þegar hann var búinn fórum við ég, Jón Friðgeir, Steingrímur og Gunnar að leika okkur. Svo fórum við Hulda Guðborg, Steingrímur, ég og Jón Friðgeir í Krokket. Svo kom bátur og voru þar um borð hjón að koma með elstu systur hans afa hana Dóru. Svo var setið inni og spjallað. Svo var farið að sofa. GÓÐA NÓTT.

Föstudagurinn 29.júlí 1983 Dagur 20.
Ég vaknaði klukkan 8 líka Sóley og svo fengum við okkur að drekka. Svo kom Hulda Guðborg og fékk hún sér að drekka og fórum við í Krokket. Svo vaknaði amma, afi var reyndar vaknaður ásamt Dóru og Steingrími. Svo fór ég inn og vöknuðu þá öll hin og komu og fengu sér að drekka. Svo fórum við ég, Jón Friðgeir, Steingrímur og Gunnar að leika okkur. Svo kom matartíminn og eftir hann fóru Stulli. Hulda Guðborg, Jón Friðgeir og Sóley gangandi að Drangajökli. Á meðan fórum við ég, Mundi, Kristín, Gunnar og Steingrímur í krokket. Svo fór ég inn en þá kom Rannveig og fórum við ég og Rannveig að spila. Svo kom kaffitíminn og eftir hann fórum við ég og Gunnar í biljard. Fór svo Rannveig heim út í Hvamm. Svo kom kvöldmatartíminn. Eftir hann fórum við ég, Steingrímur og Gunnar að skoða Andrésblöð og í þeim töluðu orðum komu þau Stulli, Hulda Guðborg, Sóley og Jón Friðgeir af Drangajökli. Eftir allt þetta vorum við ég, Steingrímur og Gunnar inni og svo fórum við ég, Jón Friðgeir, Steingrímur, Kristín og Gunnar út að leika okkur. Fórum við svo inn að tala saman. Fórum við svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Laugardagurinn 30.júlí 1983 Dagur 21.
Ég vaknaði við það að afi var að tala við Stonna út um gluggann. Svo fór Sóley á fætur. Svo fór ég framúr og fékk mér að drekka og fór svo upp í sumarbústað. Svo fór ég inn í hjólhýsið til afa, Magna og Fríðu. Svo fór ég í allskonar leiki með Sóleyju, Huldu Guðborgu, Jóni Friðgeiri, Gunnari, Steingrími, Kristínu, Fríðu og Viðari. Svo kom hádegismatartíminn og eftir hann kom Rannveig og vorum við ég, Sóley, Rannveig og Jón Friðgeir inni. Síðan fórum við öll út. Síðan setti Mundi kol í holu sem var til að elda steik upp úr. Svo fór Rannveig út í Hvamm. Í matinn þetta kvöldið var þessi svokallaða holusteik og grillaðir kjúklingar. Eftir matinn vorum við ég, Sóley, Steingrímur og Gunnar að tala saman. Svo fór ég upp í sumarbústað ásamt Steingrími og Gunnari, þar var sko æðislegt fjör. Það drukku sig nærri því allir fullir nema börnin. Svo um hálf 3 leitið var farið að sofa. GÓÐA NÓTT.

Sunnudagurinn 31.júlí 1983 Dagur 22.
Það vöknuðu nærri því allir klukkam 12. Síðan fórum við ég, Stulli, Hulda Guðborg, Jón Friðgeir og Sóley út í Hvamm. Þegar heim var komið var ég, Sóley og Jón Friðgeir í fótbolta. Síðan kom matartíminn en Stonni, Valdimar, Guðrún, Viðar og Áslaug voru farin inn að Drangajökli. Síðan fórum við krakkarnir í fótbolta og svo í yfir. Síðan fórum við ég, Sóley, Jón Friðgeir, Kristín, Fríða hans Magna, Veddi, Gunnar og Steingrímur í allskyns leiki. Svo fór ég inn og fór að spila með Fríðu og Sóley og fór svo að sofa. GÓÐA NÓTT.

Mánudagurinn 1.ágúst 1983 Dagur 23.
Ég vaknaði fór framúr og fékk mér að drekka. Svo fórum við að pakka saman. Síðan kom matartíminn. Eftir matinn var haldið áfram að pakka saman. Síðan var farið með þá sem áttu að fara með Arnari og lagði hann af stað til Ísafjarðar. Svo var farið með mig og alla hina sem fóru með Straum út í bát og lagt var af stað heim til Ísafjarðar. En Arnar var löngu farinn af stað en við náðum Arnari. Þegar heim á Ísafjörð var komið fór Stonni að sækja pallbílinn og svo var allt dótið sett á bílinn. Svo var mér keyrt heim til Vedda og fórum við ég og Gunnar með pakkana og töskurnar heim til mín, og þá endaði þetta unaðslega sumarfrí í Leirufirði. ELSKU AMMA OG AFI.

Skemmtið ykkur yfir lestrinum.

1982
1984