HR. HAMMOND
   Farfisa professional
clockhere
Flettingar í dag: 1017
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 501
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 6498506
Samtals gestir: 334207
Tölur uppfærðar: 14.12.2018 06:24:27

Todmobile

Todmobile 1988-
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson - Söngur, gítar og forritun 1988
Andrea Gylfadóttir - Söngur 1988
Eyþór Arnalds 1988-1993 / 2003-
Vilhjálmur Goði - Söngur og gítar 1996-1997

Aðstoðarmenn frá upphafi: (á böllum og tónleikum)
Eiður Arnarsson - Bassi 1988-
Ólafur Hólm Einarsson - Trommur 1989-1991 / 2000-
Kjartan Valdemarsson - Hljómborð 1988-
Matthías Hemstock - Trommur 1991-1997
Atli Örvarr Örvarsson - Hljómborð 1990-1991Andrea-Þorvaldur-Matti-Eyþór-Kjartan


1. LP Betra en nokkuð annað 1989 (nóvember Steinar)


2. LP Todmobile 1990 (nóvember Steinar)


3. LP Ópera 1991 (september Steinar)


4. EP Tarantulo 1991 (SPH Records)


5. LP Todmobile 1991 (á ensku) (SPH Records)


6. LP 2603 1992 (26. mars Steinar)


7. EP Passion time 1993 (Steinar)


8. LP Spillt 1993 (október Spor)


9. LP Perlur og svín 1996 (október Spor)


10. LP Best 2000 (Íslenskir Tónar)


11. LP Sinfónía 2004 (Sena)


12. LP Brúðkaupslagið 2004 (Sena)


13. LP Brot af því besta 2005 (Íslenskir Tónar)


14. LP Ópus 6 2006 (Sena)

Todmobile

Árið 1988 birtust á skrifstofu Steina hf þrír tónlistarmenn með frumdrög að laginu "Sameiginlegt" í pússi sínu. Þetta voru þau Andrea Gylfadóttir, Þorvaldur Bjarni og Eyþór Arnalds. Þeir Þorvaldur og Eyþór voru félagar úr tónsmíðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Þorvaldur hafði áður lokið einleikaraprófi á klassískan gítar og Eyþór burtfararprófi á selló um sama leyti. Andrea hafði stundað sellónám og lokið prófi frá Söngskólanum í Reykjavík 1986. Samstarf þeirra hófst þegar Andrea lagði Þorvaldi og Eyþóri lið við flutning á námsverkefnum í Tónó. Þau höfðu svosem stigið í poppvænginn áður; Andrea með Grafík, Eyþór með Tappa Tíkarrassi og Þorvaldur með Pax Vobis en fýsti að nýta sér kynnin af klassíkinni til að semja popptónlist með alvarlegum undirtón og lagið "Sameiginlegt" var fyrsta skrefið á þeirri braut. Að uppbyggingu var það frekar óvenjulegt af popplagi að vera og gaf fyrirheit um frekari hræringar í lagasmíðum þremenninganna. Þau kusu að kalla sig "TODMOBILE" en þetta sérkennilega nafn fengu þau úr teiknimyndasögu sem vinur Þorvaldar var að fást við um svipað leyti. Þar ók ofurhetjan Tod D. Todson um á todmóbílnum.

Það var á safnplötunni "Frostlög" sem fyrsta lag hljómsveitarinnar birtist landslýð á jólum 1988. Frostlagaplatan gaf forsmekkinn að því hvaða hljómsveitir áttu eftir að taka völdin í íslenska poppinu næstu árin því þar mátti finna lög með Nýdönsk, Sálinni hans Jóns míns og fleiri efnilegum hljómsveitum. Lagið vakti enga almenna athygli en þeim mun meiri urðu viðbrögðin í herbúðum útgefandans. Þar var ákveðið að leggja fjármagn í gerð breiðskífu með þessu frumlega tríói. Fjárframlag útgefandans átti að nema 180.000 krónum, en þegar afrakstur fyrstu upptakna kom í ljós var ákveðið að leggja meira undir. Þegar upp var staðið varð "Betra en nokkuð annað", sem var frumburður Todmobile, ein dýrasta plata ársins.

Todmobile var í upphafi þriggja manna eining, en það komu fjölmargir gestir við sögu á fyrstu plötunni, þ.á.m. voru bassaleikararnir Jakob Smári Magnússon, Jóhann Ásmundsson og félagi Þorvaldar úr Pax Vobis; Skúli Sverrisson, auk trymbilsins Ólafs Hólm sem annaðist allt slagverk. Breski upptökumaðurinn Nick Cathcart-Jones sá um hljóðvinnslu og átti hann eftir að vinna náið með þeim að næstu fjórum plötum.

Sumarið 1989 kom fyrsta nýja lagið "Stelpurokk" út á safnplötunni "Bandalög". Nýja lagið var gerólíkt frumrauninni "Sameiginlegt" og varð eitt vinsælasta lag sumarsins. Þegar platan "Betra en nokkuð annað" kom út fyrir jólin hlaut hún afbragðs viðtökur gagnrýnenda sem sögðu hana vera eitt besta og athyglisverðasta byrjendaverk allra tíma hér á landi. Lögin "Ég heyri raddir" og "Betra en nokkuð annað" vöktu mesta hrifningu og seldist platan í ríflega 3000 eintökum, sem var dágóð byrjun. Útgáfutónleika sína hélt Todmobile í Íslensku óperunni og hóf þar með þann sið að halda ætíð útgáfutónleika sína með pompi og prakt í þessu glæsilega tónleikahúsi. Allt gekk þetta eins og í sögu og Todmóbíllinn var að komast á skrið.

Á vordögum 1990 komu ballaðan "Brúðkaupslagið" og galdralagið "Abracadabra" út á safnplötunni "Bandalög 2". Gert var myndband við Brúðkaupslagið sem vakti mikla athygli og áttu myndbönd eftir að skipa stóran sess í að móta ímynd Todmobile á næstu árum. Hljómsveitin hélt uppteknum hætti og um jólin kom önnur breiðskífa sveitarinnar á markað. Hún hét einfaldlega "Todmobile". Á upptökutímanum bættist Todmobile nýr aðstoðarmaður, bassaleikarinn Eiður Arnarsson, sem átti eftir að leggja mark sitt á hljóm Todmobile eins og berlega heyrðist síðar í laginu "Stúlkan" og víðar. Aðrir sem þátt tóku í upptökunum voru trommarinn Gunnlaugur Briem, saxófónleikarinn Einar Bragi Bragason og trymbillinn Birgir Baldursson. Enn fjölgaði vinsældarlögum Todmobile og nægir að nefna "Pöddulagið", "Eldlagið", "Spiladósalagið" og "Gúggúlú". Myndband sem gert var við "Eldlagið" vann til verðlauna á uppskeruhátíð RÚV 1990. Þetta var tölvuteiknimyndband sem Eyþór átti stóran þátt í að gera í félagi við nokkra þeirra sem síðar stofnuðu fyrirtækið Oz. Mun þetta vera fyrsta myndband sinnar tegundar hér á landi og þótt víðar væri leitað. Til að fylgja plötunni úr hlaði voru haldnir nokkrir tónleikar í skólum víða um land, að ekki sé minnst á hina árvissu útgáfutónleika í Íslensku óperunni. Meðreiðarsveinar Todmobile á sviði þetta árið voru Atli Örvarsson hljómborðsleikari, Gunnlaugur Briem trommari, Eiður Arnarsson bassaleikari, Einar Bragi Bragason saxófónblásari og Jóhann Hjörleifsson slagverksleikari. Almennur áhugi á Todmobile fór ört vaxandi sem sést best á því að önnur plata sveitarinnar seldist í yfir 8.000 eintökum og færði meðlimunum platínusölu.

Eftir áramótin var hafist handa við hljóðritun nokkurra laga á ensku og kom fyrri alþjóða útgáfa Todmobile af tveimur út árið 1991. Þegar þeirri vinnu var lokið var ráðist í að semja og hljóðrita lög fyrir sumarið. Nýja lagið "Eilíf ró" fylgdi í kjölfar hinna fyrri og sló í gegn. Þar má greina sterk danstónlistaráhrif og átti Eyþór eftir leggja þá tónlist fyrir sig um stundasakir síðar meir á ferlinum með hljómsveitinni Bong. Þriðja plata Todmobile var í smíðum meira og minna allt árið 1991 og lauk þeirri vinnu á haustdögum þegar "Ópera", viðamesta plata hópsins til þessa leit dagsins ljós. Það var ekkert til sparað enda nýttu Toddarar um 800 stundir í hljóðverinu til að fullkomna verkið. Eftir það gengu Eyþór og Þorvaldur undir nafninu stúdíórotturnar. Þegar upptökum var loksins að ljúka um haustið hafði mikil kynningar- og tónleikareisa verið skipulögð, en svo knappur var tíminn að minnstu munaði að hljómsveitin leggði upp í ferðina með Akraborginni áður en búið var að skila öllum textum og gögnum til hönnuðarins. Varð útgáfustjórinn að gera sér ferð niður á hafnarbakka, skella sér um borð í Akraborgina og sækja þau gögn sem upp á vantaði áður en skipið lagði úr höfn, svo hægt væri að ljúka hönnun umslagsins og koma "Óperu" í framleiðslu í Austurríki.

Todmobile voru að halda í sína fyrstu tónleikaferð sem átti að verða betri og viðameiri en áður hafði þekkst hér á landi. Það var allt kapp lagt á fagmannlegt yfirbragð því ekki var um eiginlegan sveitaballarúnt að ræða heldur hreinræktaða hljómleikaferð. Búið var að skipuleggja tónleikaröð fyrir alla aldurshópa sem fara átti fram á virkum dögum í leik- og íþróttahúsum vítt og breitt um landið. Stórt ljósa- og hljóðkerfi var haft með í för og sett var á svið allsherjar tónveisla með viðeigandi skrautskralli og magnaðri ljósasýningu. Þetta var mikil fjárhagsleg áhætta fyrir hljómsveitina því lítil hefð var fyrir svona tónleikahaldi meðal frónverskra poppsveita. Dæmið gekk engu að síður upp og sönnuðu Todmobílarnir fyrir sjálfum sér og öðrum að það er hægt að gera út á tónleikamarkað á Íslandi. Þegar "Ópera" var í smíðum komu jazztónlistarmennirnir Kjartan Valdemarsson píanisti og Matthías Hemstock trommari töluvert við sögu. Þeir bættust nú í hópinn og þar með var tónleikasveitin Todmobile að fullu mótuð. Auk þeirra plokkaði Eiður bassann sem fyrr, Jóhann Hjörleifsson lagði til slagverk af ýmsum toga, Þorvaldur kitlaði gítarstrengi og raddaði, Eyþór strauk sellóið og söng og Andrea annaðist forsöng. Að Jóhanni undanskildum hélst þessi mannaskipan allt fram til ársins 1994 þegar hljómsveitin lagðist í dvala. Upp úr þessu fór Todmobile einnig að sinna dansleikjahaldi. Lögin sem mestrar hylli nutu af "Óperu" plötunni voru "Stopp", "Í tígullaga dal" og "Uppi á þaki". Þessi lög hljómuðu linnulaust á öldum ljósvakans hvort heldur var að morgni, um miðjan dag eða næturlangt.

Það fóru erilsamir tímar í hönd hjá Todmobile árið 1992, þó ekki væri gerð hefðbundin Todmobile-plata það árið. Á vordögum kom reyndar út hljómleikaplata sem hljóðrituð var í Óperunni 26.mars 1992 og sýnir svo ekki verður um villst hversu góð hljómleikasveit Todmobile er. Þar mátti finna 14 lög, aðallega eldri smelli í tónleikabúningi, en einnig leyndust þar inn á milli 4 nýjar tónsmíðar. Lagið "Lommér að sjá" varð vinsælast af þessari plötu, sem nefndist einfaldlega "2603" sem mun vera dagsetning áðurnefndra tónleika.

Um sumarið hélt Todmobile uppteknum hætti, lék á dansleikjum og tónleikum um allt land og lauk vinnslu á seinni plötunnar fyrir alþjóðamarkað "All Around", sem kom þó ekki út fyrr en ári síðar.

Árið 1993 var sérlega viðburðarríkt hjá Toddurum. Eyþór gældi í auknum mæli við dansgyðjuna og stofnaði dúettinn "Bong" ásamt ástmey sinni Móeiði Júníusdóttur. Hann kom því minna við sögu en áður þegar platan "Spillt" var í smíðum. Á vordögum fóru lögin "Ég vil brenna", "Tryllt" og umferðarátakslagið "Ég vil fá að lifa lengur" að heyrast í útvarpsstöðvum landsins. Lögin féllu í góðan jarðveg og sífellt óx hljómsveitinni ásmegin á dansleikjamarkaðnum. Þegar hljómplatan "Spillt" kom út í október 1993 var enn á ný haldið í tónleikaferð og var farið víða um sveitir og sjávarpláss landsins. Sem fyrr voru haldnir útgáfutónleikar í Óperunni. Ekki nægðu minna en tvennir tónleikar til að anna spurninni eftir miðum og síðan var bætt um betur með tónleikum í sneisafullu Háskólabíói. Það voru 14 lög af öllum gerðum á plötunni "Spillt", allt frá dansskotnum eyrnasmellum yfir í grafalvarlegar tónpælingar. Mest bar á laginu "Stúlkan" og skammt undan glitti í lög eins og "Ég geri allt sem þú vilt"og "Sætari en sýra" svo aðeins þrjú lög séu tiltekin.

Þrátt fyrir velgengnina var álagið mikið og komið þreytuhljóð í mannskapinn. Það benti því margt til þess að dagar Todmobile væru senn taldir. Þetta kom samt ekki í veg fyrir að "Spillt" færði Toddurum sex viðurkenningar þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn. "Spillt" var valin Plata ársins, "Stúlkan" var kjörið Lag ársins, Þorvaldur Bjarni var útnefndur Lagasmiður ársins, Andrea var kosinn Textasmiður ársins, Eiður Arnarsson var kjörinn Bassaleikari ársins og Todmobile Tónleikasveit ársins, auk þess sem aðrir hljóðfæraleikarar sveitarinnar voru tilnefndir í sínum flokkum. Að auki hlutu þau verðlaun fyrir besta myndband ársins einu sinni enn.

Á gamlársdag 1993 kvaddi hljómsveitin eftir fimm ára samstarf, fimm plötur á íslensku og tvær á ensku. Eyþór fór þá alfarið að vinna með Móeiði en Andrea og Þorvaldur stofnuðu léttsveitina "Tweety" ásamt bassaleikaranum Eiði Arnarssyni, hljómborðsleikaranum Mána Svavarssyni og trommaranum Ólafi Hólm. Þau einbeittu sér að léttri popptónlist og lögðu áherslu á að feta ekki sömu braut og Todmobile hafði gert. Að haustlagi 1994 gaf Tweety út frumsmíð sína, plötuna "Bít" og frá Bong kom platan "Release". Enn hlutu Þorvaldur og Andrea Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lagasmíðar og textagerð og Eiður hlaut aftur sömu verðlaun fyrir bassaleik sinn.

Árið 1995 fór Andrea að vinna meira með Borgardætrum en Þorvaldur gerðist tónlistarstjóri í uppsetningu Flugfélagsins Lofts á "Rocky Horror". Eiður var með Þorvaldi í "Rocky" og lék síðar einnig með Sniglabandinu, en Kjartan fór að spila í Borgarleikhúsinu auk þess sem þeir Matthías Hemstock beindu kröftum sínum að jazztónlistinni.

Snemma árs 1996 hófu Andrea og Þorvaldur að hljóðrita nýja hljómplötu. Strax fyrstu vikurnar var ljóst að að lögin sem þau voru með í smíðum vöru mun meira í Todmobile anda en Tweety stíl. Einkennin voru svo sterk að það var óhjákvæmilegt að kalla Toddara saman til skrafs og ráðagerða. Bar öllum saman um að hér væri komið efni á nýja Todmobile plötu. Þess vegna var farið að æfa af krafti og ný tónleikaferð skipulögð á haustmánuðum 1996. Upptökuvinnan stóð nær sleitulaust yfir frá febrúar til loka september og kom platan "Perlur og svín" út rúmlega mánuði síðar. Þar mátti m.a. finna lögin "Voodooman" og "Englaregn". Þeir sem skipuðu Todmobile á þessu stigi málsins voru auk Þorvaldar Bjarna og Andreu, þeir Eiður, Kjartan og Matthías. Eyþór kaus að halda áfram samstarfi sínu við Móeiði en kom samt aðeins nálægt gerð plötunnar. Vilhjálmur Goði sem getið hafði sér gott orð í söngleikjunum Hárið og Súperstar gekk til liðs við Todmobile sem gítarleikari og söngvari.

Vorið 1997 komu út tvö ný Todmobile lög og var annað þeirra "Segðu til" eftir Vilhjálm, en hitt lagið eftir Þorvald og Andreu nefnist "Díra da da da da da". Meðlimir hljómsveitarinnar tóku allir þátt í uppsetningu söngleiksins Evitu og um sumarið var land lagt undir fót og spilað víðsvegar til sjávar og sveita.

Todmobile hélt sig til hlés 1998, en fór af stað á nýjan leik eftir að Þorvaldur Bjarni og Selma Björnsdóttir náðu frábærum árangri í Eurovision keppninni í Ísrael vorið 1999. Lag Þorvaldar "All out of luck" hafnaði í öðru sæti og í framhaldinu var ráðist í gerð sólóplötu með Selmu sem varð söluhæsta plata landsins það árið. Þar komu meðlimir Todmobile nokkuð við sögu og enn frekar þegar plötunni var fylgt úr hlaði í árslok 1999. Árið 2000 var svo unnin tvöfalda safnplatan Best, á henni er að finna fyrstu nýju lögin frá Todmobile í heil 3 ár. Þar skipa sveitina sem fyrr þau Andrea, Þorvaldur Bjarni, Eiður og Kjartan en í hópinn hefur bæst trommuleikarinn Ólafur Hólm, sem kom fyrst við sögu Todmobile á fyrstu plötunni; "Betra en nokkuð annað".

Seinnihluta árs 2003 kom sveitin saman á ný, tilefnið var tónleikar sveitarinnar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eitthvað sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu að sögn aðdáenda bandsins. Þessi uppákoma sveitarinnar með Sinfóníuhljómsveitinni kveikti í þráðum hennar á nýjan leik því í kjölfarið efndi sveitin til dansleikja með upprunalegri liðskipan, en Eyþór hafði ekki komið fram með Tdomobile frá því um miðjan tíunda áratuginn.

Jónatan Garðarsson (Viðbætur: Bárður Örn Bárðarson)

Uppfært 28-08-07